Innlent

Prófin komin í leitirnar eftir klúður

Haraldur Guðmundsson skrifar
Prófin týndust fyrir fimm mánuðum þegar þau voru send til Austurríki. Fréttablaðið/Eyþór
Prófin týndust fyrir fimm mánuðum þegar þau voru send til Austurríki. Fréttablaðið/Eyþór
Prófgögn í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala við Háskóla Íslands, sem týndust í pósti í maí á leiðinni til Austurríkis, eru komin í leitirnar. Nemendur í áfanganum Fasteignakaupréttur og viðskiptabréfareglur hafa því fengið einkunn í áfanganum rúmum fimm mánuðum eftir að þeir þreyttu lokapróf.

Fréttablaðið fjallaði um málið í lok júní og kom þá fram að gögnin hefðu ekki borist kennara námskeiðsins sem búsettur er í Austurríki. Þau voru ekki send sem rekjanlegur ábyrgðarpóstur og því ekki hægt að leggja mat á árangur nemenda og tilkynna um einkunnir í áfanganum.

Nemendur sem blaðið ræddi við þá við töldu skólann hafa tekið sér of langan tíma til að komast til botns í málinu. Þeim hefði verið send stundaskrá fyrir haustönn þó svo að ekki væri ljóst hvort þeir uppfylltu kröfu um fullnægjandi meðaleinkunn.

Þeim var svo sendur tölvupóstur í gær um að prófin hefðu komið í leitirnar og kennarinn farið yfir þau. Hafa þeir nú val um hvort þeir vilji láta einkunn standa eða halda lokaeinkunninni „staðið“ sem þeir fengu þegar ekki hafði tekist að finna gögnin.

Tengdar fréttir

Próf týndust í pósti á leið til Austurríkis

Nemendur í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala hafa ekki fengið einkunnir því prófgögn sem voru send til Austurríkis eru týnd. Kennarinn býr þar í landi og voru úrlausnirnar sendar utan í maí en ekki sem rekjanlegur póstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×