Innlent

Birting samtalsins ekki borin undir Geir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir segir ólíðandi fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að samtöl hans við embættismenn ríkisins séu hljóðrituð.
Geir segir ólíðandi fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að samtöl hans við embættismenn ríkisins séu hljóðrituð. Vísir/Vilhelm
Birting á afriti af samtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag var ekki borin undir Geir. Þetta segir hann í svari til Fréttablaðsins og Vísis.

Í blaðinu var birt afrit af samtali sem þeir Davíð, sem þá var seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, áttu þegar ákvörðun var tekin um að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán (sem jafngilti þá 84 milljörðum íslenskra króna) með veði i danska bankanum FIH. Ákvörðunin var tekin sama dag og neyðarlögin voru samþykkt hinn 6. október 2008.„Innihald samtalsins ber það með sér að það er ekki vegna efnis þess sem ég hef verið andvígur birtingu þess heldur vegna þess að það er ólíðandi fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að samtöl hans við embættismenn ríkisins séu hljóðrituð án hans vitundar til opinberrar birtingar síðar. Fróðlegt gæti verið fyrir fjölmiðla að velta fyrir sér hvernig forverar mínir í embætti forsætisráðherra hefðu brugðist við slíku,“ segir Geir í svarinu.

Geir segist hafa svarað öllum efnisatriðum varðandi þetta samtal margsinnis. Þar vísar hann meðal annars í bréf sitt til Kastljóss Ríkissjónvarpsins 13. október 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.