Innlent

Starfsstjórnin fundaði í fyrsta sinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brosmildir ráðherrar þegar ráðuneyti  Bjarna Benediktssonar tók við völdum í janúar síðastliðnum. Hann fer nú fyrir starfsstjórn sem situr þar til ný ríkisstjórn tekur við eftir kosningar.
Brosmildir ráðherrar þegar ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tók við völdum í janúar síðastliðnum. Hann fer nú fyrir starfsstjórn sem situr þar til ný ríkisstjórn tekur við eftir kosningar. Visir/Anton
Starfsstjórn Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, kom saman til ríkisstjórnarfundar í stjórnarráðinu klukkan hálftíu eins og venja er á föstudagsmorgnum.

Er þetta í fyrsta sinn sem stjórnin kemur saman frá því að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn vegna trúnaðarbrests sem flokkurinn telur að komið hafi upp í tengslum við mál Hjalta Sigurjóns Haukssonar sem dæmdur var í fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var barn að aldri.

Hjalti Sigurjón fékk uppreist æru í fyrra en Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, skrifaði undir umsögn fyrir Hjalta á umsókn hans um uppreist æru.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sagði Bjarna frá því í júlí síðastliðnum en Bjarni sagði þeim Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, ekki frá málinu fyrr en í byrjun síðustu viku. Taldi Björt framtíð það vera trúnaðarbrest að Bjarni skyldi ekki greina frá málinu fyrr.

Í kjölfar ríkisstjórnarslitanna samþykkti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þingrofsbeiðni Bjarna og var boðað til kosninga þann 28. október næstkomandi.

 

Á fundi starfsstjórnarinnar í dag var meðal annars farið yfir stöðu starfsstjórna og lagt fram yfirlit yfir þau frumvörp sem samþykkt hafa verið í ríkisstjórn en hafa ekki verið lögð fram á þingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×