Innlent

Ástandið á leigumarkaði veldur því að fólk lætur gæludýrin frá sér

Baldur Guðmundsson skrifar
Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands.
Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands. Vísir/GVA
„Húsnæðismál eru ein aðalástæða þess að fólk þarf að láta frá sér dýr,“ segir Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, en fyrir tilstuðlan félagsins – sem starfað hefur í næstum áratug – hafa tæplega sex þúsund gæludýr fengið nýtt heimili.

Þeir dýralæknar og forsvarsmenn dýraspítala, sem Fréttablaðið hefur rætt við, segja að fyrir tilstuðlan Dýrahjálparinnar hafi mörgum gæludýrum verið þyrmt. Lísa Bjarnadóttir, dýralæknir og einn eigenda Dýraspítalans í Víðidal, segir það oft þyngra en tárum taki þegar eina úrræðið sé að lóga dýrunum. 

Hún segir að það sé alltaf eitthvað um að fólk þurfi að láta aflífa dýrin sín vegna aðstæðna á leigumarkaði en algengt er að gæludýrahald sé ekki leyft í leiguhúsnæði. Það eigi sérstaklega við eldri borgara, sem flytji í þjónustuíbúðir þar sem dýrahald sé bannað. Lísa segir sorglegt hversu oft sé horft fram hjá rannsóknum sem sýni hvaða jákvæðu áhrif gæludýr geti haft á heilsu eldra fólks.

Valgerður segir að með tilkomu samfélagsmiðla reynist nú miklu auðveldara en áður að finna dýrum ný heimili. Fleiri séu reiðubúnir að taka að sér stálpuð dýr. „Áður fyrr var eini sénsinn að svæfa – það var enginn markaður,“ segir hún. Valgerður nefnir þó að það sé ekki sjálfgefið að dýrin taki vistaskiptunum vel. 

Í sumum tilvikum brjótist fram hegðunarvandamál hjá dýrunum sem séu afleiðing streitu. Hún segir að á hverjum degi komi fram fólk sem þurfi, vegna flutninga eða reglna um dýrahald, að láta frá sér dýrin. Fæstum dýrunum sé þó lógað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×