Innlent

Vildi 13 milljónir í bætur frá borginni eftir að sonurinn blindaðist á öðru auga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember en nýlega birtur á vef dómstólanna.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember en nýlega birtur á vef dómstólanna. vísir/gva
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Reykjavíkurborg af 13 milljóna króna skaðabótakröfu foreldris sem höfðuðu mál eftir að sonur þeirra slasaðist alvarlega á öðru auga á smíðavelli borgarinnar sumarið 2012.

Slysið varð með þeim hætti að annar drengur kastaði spýtu í átt að honum sem lenti í auga hans. Var drengurinn fluttur á slysadeild þar sem hann gekkst undir aðgerð á auga en ekki reyndist unnt að bjarga því. Er hann í dag alblindur á auganu og notar gerviauga í dag.

Drengirnir eru báðir undir 12 ára aldri og voru á smíðavellinum seint um kvöld, eða eftir klukkan 22 að því er fram kemur í dómnum. Engir starfsmenn á vegum borgarinnar voru því á vellinum en foreldri drengsins sem slasaðist taldi að slysið mætti rekja til „hættueiginleika þess að láta smíðasvæðið vera eftirlitslaust með „naglaspýtum“ á víð og dreif þar sem börn leiki sér,“ eins og segir í dómnum.

Taldi foreldrið að borginni hefði borið að gæta þess að svæðið væri ekki hættulegt fyrir börn og að full ástæða hefði verið fyrir borgina til þess að girða svæðið af eða hreinsa það að loknum degi.

Geti ekki borið hlutlæga ábyrgð á því sem gerist á opnum svæðum í borginni

Reykjavíkurborg byggði á því að hún gæti ekki borið hlutlæga ábyrgð á því sem gerist á opnum svæðum í borginni. Taldi borgin að foreldrið hefði ekki sýnt fram á að starfsmenn borgarinnar hefðu sýnt af sér gáleysi eða að þeir hafi á einhvern hátt vanrækt skyldur sínar. Þá hafi foreldrið ekki sannað orsakatengsl á milli meintrar vanrækslu borgarinnar og tjónsins sem drengurinn varð fyrir.

„Stefndi tekur fram að B hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að þriðji aðili kastaði í hann spýtu. Stefndi geti ekki verið ábyrgur fyrir tjóni sem verði vegna ólögmætra athafna þriðja manns. Drengurinn hafi orðið fyrir atlögu, en sá sem kastað hafi spýtunni hafi aðeins verið [...] ára gamall og of ungur til að gera sér grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar gátu hlotist af gjörðum hans. Þannig megi færa rök fyrir því að tjón B hafi verið óhappatilviljun enda ljóst að margir hafi fengið í sig spýtu án þess að afleiðingarnar hafi orðið svo alvarlegar og varanlegar.

Stefndi tekur fram að slysið hafi átt sér stað kl. [...]. Engin starfsemi hafi á þessum tíma verið á vegum stefnda Reykjavíkurborgar við [...] eða smíðavellina. Samkvæmt 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé börnum, 12 ára og yngri, ekki heimilt að vera á almannafæri eftir kl. 22:00 á sumartíma, nema í fylgd með fullorðnum. Það sé því ljóst að báðir drengirnir sem hlut áttu að máli voru á almannafæri eftir leyfilegan tíma án fylgdar fullorðinna. Ábyrgð á því verði ekki lögð á aðra en forráðamenn þeirra,“ segir í dómnum en B er drengurinn sem fékk spýtuna í sig. Þá mótmælti borgin því að naglaspýtur hafi verið á víð og dreif á smíðavellinum.

Slysið ekki rakið til vanrækslu starfsmanna borgarinnar á smíðavellinum

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að á myndskeiði af atburðinum megi sjá aðbúnaðinn á smíðavellinum. Þar sjáist að timburbrettum sem voru notuð til að byggja kofa hafi verð raðað snyrtilega á einum stað á lóðinni og þá hafi ekki verið hægt að sjá laust timbur eða spýtur á jörðinni eða í kringum kofa sem höfðu verið reistir.

„Bera gögn málsins ekki annað með sér en að vel hafi verið gengið frá smíðavellinum af hálfu þeirra sem ábyrgð báru á þeirri starfsemi sem þar fór fram. Verður slys stefnanda því ekki rakið til vanrækslu stefnda með smíðavellinum. Þá verður ekki talið að á stefnda hafi hvílt skylda til að girða smíðavöllinn sérstaklega af eða hafa sérstakt eftirlit með skólalóðinni og smíðavellinum utan vinnutíma starfsmanna sem þar störfuðu, en eins og áður hefur komið fram varð slysið seint að kvöldi.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að tjón stefnanda sé að rekja til athafna eða athafnaleysis sem stefndi, Reykjavíkurborg, beri skaðabótaábyrgð á. Telur dómurinn að um óhappatilvik hafi verið að ræða, sem hvorki verður rakið til aðbúnaðar á skólalóðinni né saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefnda. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu,“ segir í niðurstöðu dómsins sem lesa má í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×