Innlent

Tvær líkamsárásir í Reykjavík í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill erill var hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Myndin er úr safni.
Mikill erill var hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Myndin er úr safni. Vísir/Daníel
Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um tvær líkamsárásir í nótt. Á öðrum tímanum var maður handtekinn í Austurstræti grunaður um líkamsárás þar sem hann hafði ráðist á mann að tilefnislausu. Sökum ástands síns var hann vistaður í fangageymslu lögreglu, en sá sem ráðist var á hugðist leita á slysadeild Landspítala.

Í dagbók lögreglu segir að klukkan rúmlega þrjú í nótt hafi maður verið handtekinn í Skeifunni grunaður um líkamsárás, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Þá segir að maður hafi verið handtekinn á hótelherbergi í Austurborginni um kvöldmatarleytið í gær. Er sá grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfja- og vopnalögum. Hann var sömuleiðis vistaður í fangageymslu lögreglu.

Fór inn í ólæsta íbúð eldri konu

Um svipað leyti var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Samtúni í Reykjavík. Maðurinn hafði farið inn í ólæsta íbúð hjá eldri konu en synir konunnar höfðu náð að koma manninum út. Sökum ástands var maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu.

Klukkan rúmlega tvö í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn við Flatahraun í Hafnarfirði. Hann hafði verið með hótanir og neitað að fara að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Lögregla hafði einnig afskipti af manni í annarlegu ástandi þar sem hann var að valda ónæði við íbúðir eldri borgari í Breiðholti um klukkan 21. Við afskipti lögreglu óskaði hann eftir gistingu í fangageymslu lögreglu þar sem hann hafði ekki í önnur hús að venda.

Loks voru afskipti höfð af þrettán ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, sviptir ökuréttinum og vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×