Innlent

Pólitísk óvissa hefur áhrif á kjaraviðræður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM. Vísir/Vilhelm
Bandalag háskólamanna (BHM) lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna sautján aðildarfélaga bandalagsins við ríkið. Í ályktun sem samþykkt var á aukaaðalfundi BHM í gær er þess krafist að tafarlaust verði gengið til samninga.

BHM segir skýrt að nýir samningar, sem skrifað verður undir, séu afturvirkir frá 1. september 2017, það er þegar fyrri samningar runnu út. „Fyrir afturvirkni eru fjölmörg fordæmi, t.d. kjarasamningur samninganefndar ríkisins við Læknafélag Íslands. Þá má nefna afturvirkni úrskurða Kjararáðs,“ segir í ályktuninni.

„Það voru hafnar viðræður við samninganefnd ríkisins í september sem stóðu fram eftir september en eftir að ríkisstjórnin féll þá lagði samninganefnd ríkisins það til að fresta viðræðum. Vel flest félögin féllust á það af því að það blasti við að samninganefndin hefði ekkert að segja. Það er sú staða sem við erum að vekja athygli á. Núna er kominn 1. nóvember og tíminn líður og það þarf að semja við þessi félög,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. Hún segir pólitísku óvissuna vera bagalega fyrir þau félög sem eru með lausa samninga.

Þórunn hefur sagt að við kröfugerðir horfi BHM á launaþróun allra ríkisstarfsmanna, þar með talið þeirra sem heyra undir kjararáð og hafa fengið launahækkanir undanfarið. Ýmis verkalýðsfélög, þar á meðal BHM, hafa gagnrýnt þær hækkanir harðlega enda teljast þær úr takti við almenna launaþróun í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×