Innlent

Safnað fyrir fjölskyldu Andreu sem lést úr hjartabólgu: „Fólk á ekki að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á sorgina“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Andrea Eir Sigurfinnsdóttir lést aðeins fimm ára gömul eftir stutta en erfiða báráttu við veikindi. Safnað er fyrir fjölskyldu hennar.
Andrea Eir Sigurfinnsdóttir lést aðeins fimm ára gömul eftir stutta en erfiða báráttu við veikindi. Safnað er fyrir fjölskyldu hennar. Úr einkasafni
Minningar og styrktartónleikar verða haldnir mánudagskvöldið 6. nóvember fyrir fjölskyldu Andreu Eirar Sigurfinnsdóttur. Andrea Eir lést 15. október síðastliðinn á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð aðeins 5 ára gömul eftir stutta en erfiða baráttu við veikindi. Mikill kostnaður skapast við þessar aðstæður og ákváðu vinir fjölskyldunnar að halda tónleika með landsfrægu tónlistarfólki þetta kvöld þeim til styrktar. 

Fram koma: 

Páll Óskar og Monika 

Regína Ósk

Magnús Kjartan

Ylja

Helgi Björnsson

Guðrún Árný

Karitas Harpa

Gunnar Ólason

Hreimur og Made in sveitin

„Fólk á ekki að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á sorgina,“ segir Ragnheiður Eggertsdóttir fjölskylduvinur en hún er önnur þeirra sem stendur að baki tónleikunum. Hún hvetur fólk til þess að koma á tónleikana og styrkja fjölskylduna og eiga hugljúfa stund. „Við þurfum líka á samverunni að halda á svona erfiðum tíma.“



Afar sjaldgæft

Andrea Eir fékk bráða hjartabólgu og er talið að hún hafi komið vegna veirusýkingar í hjarta. Þann 11. október var hún flutt með sjúkraflugi til Svíþjóðar þar sem hún lést nokkrum dögum seinna vegna veikinda sinna. 

„Það er ótrúlega sjaldgæft að þetta fari svona hjá börnum“ segir Valtýr Stefánsson Thors um bráða hjartabólgu. Valtýr er smitsjúkdómafræðingur barna hjá Barnaspítala Hringsins. Í samtali við Vísi sagði Valtýr að bráða hjartabólga komi vegna sýkinga eða stundum meðfæddra galla.

„Ef það er sýking sem veldur þá getur það í einstaka tilfellum valdið hjartabólgu.“ Hann segir að sýkingin geti smitast en þó að einhver fái hjartabólgu í kjölfarið gætu 1000 aðrir fengið bara almennari einkenni.

„Þetta er afar sjaldgæfur fylgikvilli af veirusýkingu.“



Vonast eftir fleiri flytjendum

Kynnir tónleikanna er Theodór Francis Birgisson. Tónleikarnir verða í Selfosskirkju mánudaginn 6. nóvember kl: 19:30 miðaverð er 3500 krónur. Frítt er fyrir börn fimm ára og yngri. Miðasalan fer fram í Dýraríkinu á Selfossi og í Reykjavík, Verzluninni Borg í Grímsnesi og Skálanum Stokkseyri. Ekki er posi- aðeins hægt að greiða með pening.

„Allir tónlistarmenn gefa vinnuna sína, EB hljóðkerfi lánuðu okkur hljóðkerfi og annað endurgjaldslaust og starfsmann með og svo eru JÁ verktakar einnig styrktaraðilar. Listinn yfir þá sem fram koma er ekki tæmandi listi, vonandi eiga fleiri eftir að bjóða sig fram og eru til í að vera með,“ segir Ragnheiður.

Þeir sem vilja leggja fjölskyldunni lið geta lagt inn á reikning sem er á nafni Guðrúnar Jónu Borgarsdóttur, móður Andreu. Reikningsnúmerið er 0586-26-850105 og kennitalan 041177-3499.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×