Innlent

Jóhannes Kr. líkir Sigmundi Davíð við Donald Trump í viðtali við New York Times

Atli Ísleifsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson. Vísir/ernir

„Hann hefur talað sig út úr hneykslismálinu,“ segir blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í samtali við New York Times þar sem fjallað er um íslensku þingkosningarnar sem fram fara í dag. „Það má líkja honum við Donald Trump. Hann er með hóp fólks sem mun kjósa alveg sama hvað hann segir eða gerir.“

Í greininni segir að eftir einar sjónvarpskappræðurnar í kosningabaráttunni hafi Sigmundur Davið strunsað af sviði án þess að taka í hönd pólitískra andstæðinga sinna. Sem forsætisráðherra hafi hann virst sérlundaður, boðið samstarfsmönnum að leika með legókubbum og á fundi með Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, hafi hann klæðst fægðum skó á öðrum fæti og íþróttaskó á hinum.

Í grein New York Times kemur fram að Sigmundur Davíð hafi ítrekað hafnað beiðnum New York Times um viðtal. Hann hafi hins vegar ítrekað fullyrt að hann hafi ekki gert neitt rangt í tengslum við aflandsfélagið Wintris. Hafi hann hins vegar sagst vera fórnarlamb samsæris pólitíska kerfisins og fjármálakerfis Íslands, allt í samráði við fjármálamanninn George Soros.

Lesa má grein New York Times í heild sinni hér.

Sigmundur Davíð gekk eins og frægt er orðið út úr viðtali við Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóra Reykjavík Media, og sænska ríkissjónvarpið, SVT, á vormánuðum 2016 þegar þeir spurður hvers vegna hann hafi ekki greint frá félaginu Wintris, sem var í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu forsætisráðherra. Sigmundur Davíð lét af störfum forsætisráðherra skömmu síðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.