Innlent

Vinnubrögðin á Alþingi ekki fólkinu að kenna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, sat fyrir svörum í Kosningaspjalli Vísis.
Helgi Hrafn Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, sat fyrir svörum í Kosningaspjalli Vísis. Vísir/Stefán
Þegar aðalatriðið í stjórnmálum snýst um hvort ríkisstjórn standi eða falli er ekki verið að ræða þau málefni sem skipta þjóðina máli. Þetta snýst þó ekki um hvaða fólk situr á Alþingi, þetta er eðli stofnunarinnar að mati Helga Hrafns Gunnarssonar Pírata.

Helgi Hrafn sat fyrir svörum í Kosningaspjalli Vísis en hann er oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Honum hefur verið tíðrætt um vinnubrögðin á Alþingi. Traust á Alþingi er í lágmarki samkvæmt könnunum Gallup og hefur Helgi sagt að á Alþingi líðist hegðun sem myndi aldrei líðast á öðrum vinnustöðum. En hver er ástæðan?

„Þetta er ekki fólkið. Þetta er eðli stofnunarinnar, kannski að hluta til eðli fyrirbærisins. Þetta er eðli þess að við erum að takast á um raunverulegan ágreining. Stjórnmálamenn eiga að vinna saman þegar það er flötur fyrir samstarfi en þegar þeir eru ósammála í grundvallaratriðum takast þeir á. Úr þessu verður menning þar sem mjög stutt er í alla óheilbrigða hegðun, alls konar eineltishegðun og leiðindi,“ segir Helgi Hrafn.

Helgi Hrafn segir þó að Alþingi verði aldrei venjulegur vinnustaður og mikilvægt sé að hætta að reyna að ímynda sér að með rétta fólkinu lagist vinnubrögðin á Alþingi. Setja þurfi reglur  sem hafi þetta eðli Alþingis til hliðsjónar til þess að taka á þessum vanda.

„Ég myndi fyrst og fremst vilja laga þetta með því að gera samband ríkisstjórnarinnar og Alþingis heilbrigðara, það væri fyrsta skrefið,“ segir Helgi sem telur að flestir þingmenn myndi sér málefnalega skoðun á þeim málum sem komi til kasta Alþingis en þegar greidd eru atkvæði fylgja þau yfirleitt línum eftir því hver er í ríkisstjórn og hver er í stjórnarandstöðu.

„Þegar það er aðalatriðið í stjórnmálum þá erum við ekki að tala um málefnin sem skipta þjóðinni máli. Það er vandamálið.“

„Elliíbúðir“ fyrir leigjendur

Húsnæðisvandi ungs fólks hefur verið í brennidepli undanfarna mánuði en erfitt getur reynst fyrir ungt fólk að kaupa sér fasteign á sama tíma og húsnæðisverð fer hækkandi. Helgi Hrafn var spurður um stefnu Pírata í húsnæðismálum og segir hann að stefna Pírata sé að gera stórátök í byggingu íbúða sem hugsaðar séu til langtíma leigu, eyrnamerktar leigjendum á sama hátt og íbúðir sem séu sérstaklega ætlaðar fyrir þá sem náð hafa ákveðnum aldri.

„Þetta er gert með íbúðir fyrir aldraða, það eru kvaðir á þeim sem segja að það megi bara selja þær öldruðum. Það þýðir að verðið á þessum íbúðum er ónæmt fyrir umframeftispurn á markaði eins og ferðaþjónustu, airbnb og því. Þú myndar ákveðna vernd fyrir þann hóp með því að gera þetta.“

Þetta muni leiða til þess að leigjendum séu tryggðar öruggar íbúðir og að þeir fái skjól fyrir ákveðnum markaðsþáttum sem geri stöðu leigjenda ótrygga í dag.

„Það verður meiri samkeppni á leikumarkaði sem þýðir að leigan lækkar. Það ætti þá að gera það að verkum að fólk gæti sparað sér fyrir íbúðum.“

Sjá má þáttinn í heild sinni hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.