Innlent

Málafylgjumenn Trump tala máli Íslands

Kjartan Kjartansson skrifar
Söluvara SPG er aðgangur að ríkisstjórn Donalds Trump.
Söluvara SPG er aðgangur að ríkisstjórn Donalds Trump. Vísir/AFP
Íslensk stjórnvöld hafa gert samning við bandarískt málafylgjufyrirtæki sem er sagt hafa tengsl við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Málafylgjumennirnir eiga að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart hertum reglum í farþegaflugi til Bandaríkjanna.

Greint er frá samningnum við fyrirtækið SPG á vefsíðu Politico. Þar kemur fram að fyrirtækið hafi verið í sókn eftir að New York Times fjallaði um Robert Stryk, stjórnarformann þess, í tengslum við málafylgjumenn með tengls við Trump. RÚV sagði frá þessu fyrr í dag.

Í grein New York Times kom fram að SPG hafi verið lítil fyrirtækið en hafi hjálpað framboði Trump óformlega í kosningabarátttuni á vesturströnd Bandaríkjanna. Stryk hefur gefið sig og fyrirtæki sitt út fyrir að geta hjálpað viðskiptavinum að hafa áhrif á ríkisstjórn Trump. Síðan þá hefur því vaxið fiskur um hrygg.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir að samningurinn hafi verið gerður til reynslu í nokkra mánuði.

SPG er einnig sagt starfa fyrir stjórnvöld í Afganistan, Kenía og Tékklandi. Politico segir að ekki komi fram í samningum sem blaðið hefur séð hversu mikið Ísland greiði fyrir þjónustuna.

Málafylgjumenn alvanalegir í Bandaríkjunum

Urður segir dæmi til um að íslensk stjórnvöld hafi greitt þrýstihópum fyrir að tala máli Íslands áður þó að það gerist ekki oft. Fyrirtæki af þessu tagi séu alvanaleg í Bandaríkjunum.

Spurð að því hvers vegna íslenska ríkið ráði fyrirtæki af þessu tagi til að tala máli íslenskra fyrirtækja segir Urður að hlutverk ráðuneytisins sé að gæta íslenskra hagsmuna erlendis.

„Þar með talið er það fyrir fyrirtæki. Það er bara hluti af íslenskri utanríkisstefnu,“ segir hún.

Greint var frá því í vikunni að utanríkisráðuneytið hefði ráðið bandarískt almannatengslafyrirtækið til að leiðrétta umfjöllun um fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar erlendis. Ellefu erlendum fjölmiðlum, þar á meðal Washington Post, hafi verið sendar athugasemdir.

Athugasemdir voru einnig gerðar þegar umfjöllun fór af stað erlendis um stefnu íslenskra heilbrigðisyfirvalda varðandi Downs-heilkennið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×