Skoðun

Er tollvernd á pari við mannréttindabrot?

Elín M. Stefánsdóttir skrifar
Hver er munurinn á vernd og réttindum? Spyr sá sem ekki veit. Ég hefði haldið að ef ég banna barninu mínu að fá nammi á laugardögum væri ég að vernda það fyrir þeirri óhollustu sem sykur er, en kannski er ég að brjóta á mannréttindum þess? Allir hinir fá nammi! Þessi samlíking kemur upp því fyrir nokkrum vikum heyrði ég viðtal á Rás 1 við framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, þar sem hann sagði að „…ef tollar verða ekki felldir niður af matvælum á Íslandi erum við á sama stað og Norður-Kórea.“! Í alvöru?

Ég er nokkuð viss um að Yeonmi Park sem kom til landsins á dögunum og íbúar Norður-Kóreu séu honum ekki sammála. Þeir myndu sjálfsagt fegnir vilja skipta fengju þeir val. Í Norður-Kóreu eru framin margvísleg mannréttindabrot. Mér finnst framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gera lítið úr þeim hörmungum sem íbúar Norður-Kóreu þurfa að þola með svona ummælum. Er það brot á mannréttindum að hafa tollvernd á matvælum sem við getum framleitt hér? Í alvöru?

Árið 2015 gerðu íslensk stjórnvöld tollasamning við Evrópusambandið og Evrópusambandið staðfesti þennan samning nú á dögunum. Þar er samið um ákveðið magn af landbúnaðarvörum sem við megum flytja til Evrópusambandsins í skiptum fyrir vöru sem Evrópusambandslönd mega flytja hingað. Í Evrópusambandinu búa 511 milljónir manns, á Íslandi 334 þúsund. Magnið af tollkvótum er kg á móti kg. Í ostum t.d er þetta u.þ.b. 10% af íslenska markaðinum, en útflutningurinn sem fenginn er á móti ca. 0,01 % af Evrópumarkaði. Er þetta í lagi? Í alvöru?

Það er verulegt umhugsunarefni hvernig stjórnvöld (hver sem þau nú verða) ætla að vernda innlenda framleiðslu á komandi árum. Það er talað um kolefnisjöfnun og kolefnisspor og sýklalyfjalaus matvæli og heilnæm matvæli og sjálfbærar byggðir o.s.frv o.s.frv. Hvernig á þetta að gerast þegar okkur er ekki gefinn kostur á að keppa á jafnréttisgrundvelli? Ætla stjórnvöld hér að fylgjast með því að matvælin sem eru flutt inn séu framleidd við sambærilegar aðstæður og hér? Að reglugerðum sé fylgt eftir varðandi sýklalyfjanotkun, aðbúnað, dýravernd, útivist kúa, laun verkamanna og svo má lengi telja. Í alvöru?

Öll lönd í heiminum gera hvað þau geta til að vernda innlenda framleiðslu, m.a. með tollum. Eigum við á Íslandi að gefa eftir tollvernd fyrir samfélag sem er 1,5 milljón sinnum stærra en okkar? Eigum við að gera lakari kröfur til þeirra matvæla sem við flytjum inn en eigin framleiðslu. Í alvöru?

Ísland og íslenskir neytendur eiga betra skilið en það. Þeir eiga rétt á matvælum sem framleiddar eru við góðar aðstæður. Við eigum bara eitt Ísland og við þurfum að varðveita búskaparhætti okkar og innlendu framleiðsluna. Þetta þurfum við að vernda áfram fyrir afkomendur okkar. Í alvöru.

 

Höfundur er bóndi og stjórnarkona Auðhumlu svf.


Tengdar fréttir

Í alvöru?

Elín M. Stefánsdóttir, bóndi og stjórnarkona í Auðhumlu, móðurfélagi Mjólkursamsölunnar, skrifar grein um tollvernd á búvörum á Vísi í dag og skammar framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×