Innlent

Hrefnuvertíðin sú versta í yfir áratug

Gunnar Bergmann Jónsson, hrefnuveiðimaður hjá IP-útgerð.
Gunnar Bergmann Jónsson, hrefnuveiðimaður hjá IP-útgerð. vísir/vilhelm
Hrefnuveiðimenn hafa veitt 17 dýr í ár og ekki upplifað verri vertíð síðan atvinnuveiðar á hrefnu hófust árið 2006. Skipstjóri hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu segir mun minna hafa verið af hrefnu á Faxaflóa í sumar en undanfarin ár.  

„Ég veit ekki hversu langt þú þarft að fara aftur en þetta er það minnsta sem við höfum séð. Veður setti strik í reikninginn og ýmislegt kom upp á. Það var kannski aldrei farið af fullri hörku í þetta en þetta var ekki nógu gott,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar, sem hefur gert út á hrefnu í um tíu ár. 

Tveir bátar, Hrafnreyður KÓ og Rokkarinn KE, voru að veiðum í Faxaflóa en einnig norður í Skagafirði. Vertíðin hófst mánaðamótin apríl-maí en fyrsta dýrinu var ekki landað fyrr en í annarri viku júnímánaðar. Gunnar segir útlit fyrir að vertíðinni sé lokið en útilokar ekki að farið verði til veiða ef veður og aðstæður leyfa. Kvótinn sé um 220 dýr og veiða megi sex mánuðum eftir að vertíðin hefst.

„Það er klárlega minna af hrefnu á þessum svæðum hvað sem veldur. Þessi 40 þúsunda dýrastofn sem er hérna einhvers staðar er ekki dauður en er kannski kominn miklu norðar eða heldur sig upp við austurströnd Grænlands,“ segir Gunnar.

IP-útgerð gerir Hrafnreyði út og rekur vinnslu í Hafnarfirði. Gunnar hefur flutt inn hrefnukjöt frá Noregi þegar framboð hefur ekki annað eftir­spurn. Að hans sögn hefur útgerðin ekki flutt inn neitt kjöt á þessu ári. Í fyrra veiddust 46 dýr sem dugðu til að anna eftirspurn fram að síðasta vori. 

„Það eru allar líkur á því að við förum aftur út næsta sumar en þá á styttri vertíð eða sem nemur tveimur til þremur mánuðum,“ segir Gunnar.

„Við sáum eitthvað minna af hrefnu en undanfarin ár. Einnig var erfiðara að sjá hana sem þýðir að hún er lengur niðri og sýnir sig minna. Þetta er með því minnsta sem ég hef séð en ég er búinn að vera í þessu í tíu ár,“ segir Guðlaugur Ottesen, skipstjóri hjá Eldingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.