Innlent

Rannsóknarnefnd ítrekar að kanna skuli sleppibúnað björgunarbáta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá því í júní í fyrra þegar Jón Hákon BA var dreginn af hafsbotni.
Frá því í júní í fyrra þegar Jón Hákon BA var dreginn af hafsbotni. mynd/landhelgisgæslan
Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) ítrekar í nýrri skýrslu sinni að þegar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem slík tillaga er send Samgöngustofu í öryggissátt.

Fyrir helgi birti nefndin niðurstöðu sína úr rannsókn á banaslysi sem varð í maí í fyrra þegar Brekkunesi ÍS 110 hvolfdi á Vestfjarðarmiðum. Færið var vont og hafði skipstjóri, og jafnframt eini skipverji, strandveiðibátsins hætt sér á svæði sem aðrir bátar vildu eigi fara á. Talið er að alda hafi komið á bátinn en áverkar á hinum látna og ummerki á bátnum benda til þess. Enginn var til frásagnar um atvik.

Sjálfvirkur sleppibúnaður Brekkunessins virkaði ekki en hann var á um 2,5 metra dýpi meðan báturinn var á hvolfi. Við prófun virkaði hann á 3,5 metra dýpi.

Sjálfvirkur sleppibúnaður virkaði heldur ekki sem skyldi þegar Jóni Hákoni hvolfdi á svipuðum stað í júlí 2015. Einn fórst í því slysi og þrír komust lífs af við illan leik. RNSA ítrekar eina tillögu sína sem gerð var í niðurlagi skýrslu um atvikið en henni var skilað í febrúar.

„Nefndin telur óásættanlegt að gúmmíbjörgunarbátar losni ekki frá skipum ef þeim hvolfir,“ segir í skýrslunni. „[Þ]egar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×