Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem ákærður er fyrir fjölda brota, þar á meðal fjársvik, rán, þjófnað og innbrot.
Maðurinn var handtekinn 1. maí eftir að lögreglu hafði verið tilkynnt um innbrot og þjófnað í nýbyggingu við Suðurhlíð í Reykjavík. Sást til mannsins bera verkfæri í bifreið við húsið.
Það er þó fjarri því eina brotið sem maðurinn er sakaður um.
Alvarlegasta brotið er líklega rán sem hann er sagður hafa framið 17. október. Hann á að hafa ruðst inn í íbúð manns, heimtað hjá honum lyf og hótað því að stinga hann með hníf. Þá á hann að hafa slegið husráðanda nokkrum sinnum og tekið síma hans. Fórnarlambið hlaut sjáanlega áverka á andliti.
Hann er einnig ákærður fyrir að hafa stolið veski og að hafa tekið rúmar 100.000 krónur út af greiðslukortum sem í því voru. Þá stal hann farangri og sjónvarpi á hótelherbergi í Reykjavík, myndavélum og öðrum búnaði úr geymslu í Kópavogi og eldsneyti af bensínstöð svo eitthvað sé nefnt.
Alls er hann ákærður fyrir tíu þjófnaði og innbrot en brotin framdi hann á tímabilinu frá 17. október 2016 þangað til hann var handtekinn. Játar hann sök í flestum tifellum.
Fjármögnun á fíkniefnaneyslu
Í kjölfar handtökunnar fundust ýmsir munir á heimili mannsins sem lögregla telur að sé þýfi sem tengist þremur innbrotum. Maðurinn neitaði því.
Í staðfestingu Hæstaréttar á gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í lok júlí kemur fram að lögregla telji að maðurinn hafi notað ávinninginn af brotunum til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína.
Hann þarf að sitja áfram í gæsluvarðhaldi til 22. ágústs.
Síglæpamaður þarf að sitja áfram í varðhaldi
Kjartan Kjartansson skrifar
