Innlent

Formannslaust fram á haust 2018

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna.
Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna. vísir/gva
Allt bendir til að Neytendasamtökin verði án formanns fram á síðari hluta næsta árs. Lög félagsins standa í vegi fyrir formannskjöri og stjórn samtakanna leitar nú til lögfróðra aðila um túlkun þeirra, vegna formannskrísunnar. 

„Við erum að glíma við tvennt, annars vegar fjárhagsvandann, en það er hluti af aðhaldsaðgerðum hjá okkur að hafa ekki formann á launum. Hins vegar eru lögin okkar svolítið erfið. Þau gera ekki ráð fyrir svona frávikum, eins og að formaður fari frá og við þurfum að heyra í lögfróðum mönnum um hvernig við glímum við það,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna. Félagið hefur verið formannslaust frá því að Ólafur Arnarson sagði af sér formennsku 10. júlí eftir stutta og stormasama formannstíð.

Aðspurður segist Stefán ekki eiga von á að blásið verði til þings í haust. Tíminn sé of knappur og lögin gera bara ráð fyrir reglulegu þingi á tveggja ára fresti. Þá gera lögin heldur ekki ráð fyrir því að formannskjör geti farið fram á öðrum vettvangi en á þingi.

Stjórnin hefur boðað félagsmenn til fundar þann 17. ágúst næstkomandi þar sem farið verður yfir þessi mál „og leitað eftir aðstoð og tillögum frá félagsmönnum“ að því er fram kemur í fundarboði á vef samtakanna.


Tengdar fréttir

Stjórn Neytendasamtakanna íhuga að flýta formanns- og stjórnarkjöri

Stefán Hrafn Jónsson varaformaður Neytendasamtakanna segir að staðan innan þeirra hafi vissulega breyst með afsögn Ólafs Arnarsonar úr embætti formanns í fyrradag. Það sé vilji til þess innan samtakanna að flýta þingi þess og kosningum í embættið sem og í stjórn samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×