Innlent

Sveitarfélagið afþakkaði flugstöð sem ríkið selur hæstbjóðanda

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Dapurlegt segir bæjarstjórinn um sölu á flugstöðinni á Patreksfjarðarflugvelli.
Dapurlegt segir bæjarstjórinn um sölu á flugstöðinni á Patreksfjarðarflugvelli. Mynd/Ríkiskaup
„Það er mjög dapurlegt að þetta skuli vera komið í þennan fasa,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, um þá fyrirætlan ríkisins að selja flugstöðina á Patreksfirði.

Flugstöðin var byggð við flugvöllinn í Sauðlauksdal árið 1983. Ásthildur segir að nú séu komin tæp tuttugu ár frá því áætlunarflug þangað lagðist af. Þótt lendingarljós og slíkt hafi verið fjarlægð telji hún það ekki mundu vera mikið mál að koma flugvellinum í nothæft ástand fyrir stórar vélar. Í augnablikinu séu fiskeldismenn að setja saman kvíar á vellinum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.vísir/jón sigurður
Ásthildur segir Isavia reyndar hafa reynt að gefa Vesturbyggð flugstöðina en ákveðið hafi verið að þiggja hana ekki. „Það væri nú bara bjarnargreiði. Það þarf mikið að gera við húsið. Því hefur ekki verið sinnt í mörg, mörg ár,“ útskýrir hún.

Aðspurð segist Ásthildur ekki vita hvaða hlutverk hugsanlegir kaupendur gætu fengið flugstöðinni. Aðalbyggingin er 225 fermetrar og að auki fylgi 40 fermetra vélageymsla. Marka á húsinu leigulóð á staðnum þar sem það stendur. „Það er bara spurning um hvað fólki dettur í hug. Þetta er stórt og myndarlegt hús og stendur á fallegum stað,“ segir bæjarstjórinn.

Frestur til að skila tilboðum í flugstöðina inn til Ríkiskaupa rennur út 1. september. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.