Innlent

Formaður Landssambands veiðifélaga segir grundvöll fyrir banni á laxeldi á fleiri stöðum en í Ísafjarðardjúpi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Vísir/pjetur
Formaður Landssamband veiðifélaga segir grundvöll fyrir banni á laxeldi á fleiri stöðum en í Ísafjarðardjúpi eftir að Hafrannsóknarstofnun lagði til í nýútkominni skýrslu að ekki verði leyft að ala fisk í sjókvíum þar. Stofnunin segir möguleika á miklum neikvæðum áhrifum á villta laxastofna af eldi í Ísafjarðardjúpi.

Í nýrri skýrslu Hafrannsóknarstofnunnar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi segir að nokkur áhrif verði í nokkrum ám en í niðurstöðum matsins er talið ásættanlegt að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af  frjóum eldislaxi hér við land.

Formaður Landssamband veiðifélaga er undrandi á því hversu bratt er aukið úr núverandi magni sem eru 10.000 tonn.

„Okkur finnst að það er verið að leyfa gríðarlegt magn frjóum laxi, sjötíu og eitt þúsund tonn sem er sjöföldun frá því sem er í dag. Okkur finnst það mjög bratt og erum í rauninni alfarið á móti því að menn séu að ala frjóan norskan lax bara útaf þeirri áhættu sem það hefur í för með sér fyrir villta laxastofna,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Jón segir aukninguna stórauka líkurnar á erfðamengun og komi hún til er hún ekki afturkræf.

„Við teljum að menn séu að taka þarna mikla áhættu,“ segir Jón. Hafrannsóknarstofnun gerir ráð fyrir að áhrif laxeldis komi til með að verða í Laugardalsá, Langadalsá í Ísafjarðardjúpi og Breiðdalsá í Breiðdalsvík en í skýrslunni segir að þessar ár verði að vakta sérstaklega.

„Þarna komast menn að þeirri niðurstöðu að það sé ekki rétt að heimila eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og þetta er eitthvað sem við höfum haldið fram mjög stíft að stofnanir þar séu litlir að þoli ekki það gríðarlega inngrip sem að menn hafa verið að áætla þarna. Þannig að frá okkar sjónarhorni þá er þetta mjög mikilvæg niðurstaða. Þetta er ákveðin prófsteinn á náttúruvernd á Íslandi. Láta menn undan og breyta þessu mati eða halda menn sig við þessa niðurstöðu og stjórnvöld þurfa að standa í lappirnar því að þarna eru litlir stofnar laxa og þeim ber bara einfaldlega að vernda þá,“ segir Jón Helgi.

Jón Helgi segir að með ábendingu Hafrannsóknarstofnunnar um bann við fiskeldi í Ísafjarðardjúp sé kominn grundvöllur fyrir banni við laxeldi á öðrum stöðum.

„Ég held að það sé alveg klárt að ef maður horfir á rökin fyrir þessari niðurstöðu varðandi Ísafjarðardjúpi að þá eru enn sterkari rök fyrir því að friða Eyjafjörð þannig að ég sé ekki annað en að niðurstaðan segi það að eldi af frjóum löxum verður ekki heimiluð í Eyjafirði,“ segir Jón Helgi

 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×