Innlent

Mikill seiðadauði orðið vegna mengunarslyssins í Andakílsá

Gissur Sigurðsson skrifar
Andakílsvirkjun.
Andakílsvirkjun. wikipedia commons
Samkvæmt frumathugun sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar hefur mikill seiðadauði orðið í Andakílsá vegna mengunarslyssins þar á dögunum og að það geti tekið ánna mörg ár að jafna sig. Orka náttúrunnar, sem rekur rafstöðina í ánni, vinnur að aðgerðaráætlun til að bæta mesta tjónið sem fyrst.

Inntakslón Andakílsvirkjunar var tæmt um miðjan mánuðinn við mynni Skorradalsvatns sem leiddi til að mikið magn aurs flæddi niður ána. 

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hefur verið að rannsaka aðstæður í og við Andakílsá. Hann segir að til sé gróft mat á því hvað mikið set hafi borist í farveginn. Samkvæmt upplýsingum frá Orku náttúrunnar þá hafi þetta verið á milli fjögur og fimm þúsund rúmmetrar af seti sem fóru úr inntakslóninu og niður í ánna. „Það samsvarar að okkar mati milli átta og tíu þusund tonnum af seti,“ segir Sigurður Már.

Nú er mér sagt að hrygningarsvæðið sé tiltölulega lítið í ánni. Fór mikið í það?

„Já, það má segja að Andakílsá sé mjög stutt á, og laxasvæðið í henni – sem er að búa til seiði, þar sem lax getur hrygnt og seiði alist upp á – það er kannski ekki nema þrír kílómetrar, eða eitthvað slíkt.“

Getið þið áætlað seiðadauða þarna?

„Ekki nákvæmlega.“

Gæti þetta þá ekki tekið mörg ár að jafna sig?

„Jú, ég reikna með að þetta geti orðið nokkra ára lægð í veiði. Auðvitað á þetta eftir að koma betur í ljós. Ég veit til að mynda ekki hvað varð um árganginn sem er að fara úr núna, hvort að hann hafi náð að komast til sjávar.“

Leggið þið til að öllum fiski sem veiðist í ánni í sumar verði sleppt lifandi?

„Við höfum lagt til að enginn fiskur verði drepinn í sumar heldur rétt að taka mikið af fiski í klak,“ sagði Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur.

Andakílsá hefur skilað um 200 löxum að meðaltali síðustu ár.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×