Innlent

Gagnrýndur fyrir að ráðleggja fólki að troða athugasemdum upp í rassgatið á sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans og sjónvarpsmaður.
Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans og sjónvarpsmaður. Vísir/Andri

„Ef óbreyttir borgarar – kannski fólk sem á erfitt og líður ekki vel – dirfast að halla orði á starfsmenn RÚV á kommentakerfum fréttamiðla, mega þeir þá eiga von á því að vera varpað upp á skjáinn í sjónvarpi allra landsmanna á præmtæm, nafngreindir, sakaðir um „væl“ og sagt að troða hlutum upp í rassgatið á sér?“

Þetta er spurningin sem leitaði á verðlaunablaðamanninn Jóhann Pál Jóhannsson eftir að hafa horft á innslag ritstjórans Atla Fannars Bjarkasonar í Vikunni með Gísla Marteini í gærkvöldi.

Í innslagi sínu, sem sjá má hér að neðan, gerði Atli sér mat úr frétt Vísis, eða öllu heldur viðbrögð við frétt Vísis, um raunir skemmtikraftsins Sólmundar Hólm sem festist í flugvél í Keflavík í tvær klukkustundir vegna óveðurs síðastliðinn mánudag.

Sjá einnig: Fastur í vélinni á vellinum í tvær klukkustundir: Í topp fimmtán af verstu martröðum

Í athugasemdakerfinu við fréttina sköpuðust miklar umræður og þótti mörgum ekki mikið til rauna Sólmundar koma.

Atla Fannari þóttu viðbrögðin við fréttinni raunar svo öfgafull að bróðurpartur hins 5 mínútna langa innslags tileinkaði hann hinum svokölluðu „virku í athugasemdum“ sem hann sagði sífellt hafa „allt á hornum sér“ og að þeir væru „ekki aðeins að skemma eigin mannorð - þeir eru að skemma internetið.“ 

Sagði hann hegðun þeirra á netinu hafa orðið til þess að „sumt fólk nennir ekki eða þorir ekki að tjá sig opinberlega.“

Atli tók því næst fyrir nokkrar athugasemdir, sem allar voru undir nafni og hann hafði áður gert sér mat úr í frétt á vef sínum, og ráðlagði nafngreindum höfundum þeirra hvernig þær hefðu betur verið skrifaðar.

„Ef þið hættið þessu endalausa væli í kommentakerfinu þá er aldrei að vita nema að þið sjáið að þó fólk tjái sig um hluti í fjölmiðlum, sem skipta ykkur ekki máli persónulega, þá er algjör óþarfi að ráðast á viðkomandi,“ sagði Atli og bætti við:

„Jafnvel þó einhver tjáir skoðun sem ykkur finnst alveg út í hött þá er hægt að draga andann djúpt, skrifa athugasemdina sem átti að fara í kommentakerfið frekar á miða og troða miðanum djúpt upp í ra...“ en þá var klippt á innslagið.

Sem fyrr segir vakti innslagið misjöfn viðbrögð og þótti mörgum Atli reiða „hátt til höggs gagnvart fólki sem hefur ekki sömu aðstöðu og fjölmiðlamenn til að verja sig.“ Þá var honum líkt við eineltistudda sem nýtir aðstöðu sína „og vinsældir til að atast í fólki sem hefur ekki jafn sterka stöðu og þeir sjálfir.“

Þannig líkir blaðamaðurinn Atli Thor Fanndal nafna sínum við „vinsæla krakkann á skólalóðinni“ sem í stað þess að pönkast í valdinu ákveður að gera „grín að lúðunum.“

„Þótt mér leiðist ruglið í athugasemdakerfum þá verð ég að segja að mér leiðist þetta stéttarstríð að ofan enn meira. Menningarsnautt, frekt, sjálfhverft, fyrirsjáanlegt og grunnt. Fyrst og fremst bara drepleiðinlegt,“ segir Atli Thor.

Hér að neðan má sjá færslu Atla Thors Fanndals sem og viðbrögð Atla Fannars við gagnrýni nafna hans..


Tengdar fréttir



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira