Innlent

Síðasta haftið í Vaðlaheiðargöngum var sprengt í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Síðasta haftið í Vaðlaheiðargöngum var sprengt í dag. Um er að ræða eina erfiðustu gangnagerð sem ráðist hefur verið í hér á landi. Gangnagröfturinn hefur tekið 185 vikur og það var létt yfir mönnum sem fögnuðu að ná þessum áfanga í dag.

Það voru Barbörur, verndarenglar jarðgangnamanna sem sprengdu síðasta haftið í Vaðlaheiðagöngum að viðstöddum fjölmiðlum klukkan þrjú í dag.

Göngin eru einhver umdeildasta framkvæmd í sögu samgöngumála en vinna við undirbúning gangnagerðarinnar hófst fyrst árið 1990 þegar Vegagerðin gerði lauslega úttekt á mögulegum staðsetningum á jarðgöngum undir Vaðlaheiði.

Framkvæmdir við göngin sjálf hófust í júlí 2013 þegar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sprengdi fyrsta haftið og fóru framkvæmdir vel af stað. Tvö áföll hafa komið upp á verktímanum en það var þegar verktakinn gróf inn á vatnsæðar í fjallinu og var vatnsmagnið það mikið að á tímabili var farið á milli staða í árabát.

Búið að bíða lengi

Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður Stöðvar 2 var viðstaddur sprenginguna í dag og ræddi þar meðal annars við Steingrím J. Sigfússon, þingmann Vinstri grænna.

„Við erum búin að bíða lengi eftir þessu en þetta er allt að hafast. Þolinmæðin þrautir vinnur allar,“ segir Steingrímur.

Þessi göng eru nú svolítið þitt barn er það ekki?

„Ja okkar allra bara, en jú það þurfti dálítið að hafa fyrir því að koma þessu af stað og það er búin að vera dálítil umræða um þetta en nú fer hún að hljóðna.“

Gert var ráð fyrir að framkvæmdum myndi ljúka í árslok 2016 en líklegt er að almennri umferð verði hleypt um göngin eftir rúmlega ár.f

„Við sjáum að þessu verki, sem leit ekki alltaf jafn vel út, því er að ljúka og það er svo sannarlega góð tilfinning,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

Þetta hefur nú kostað svolítinn pening.

„Já já en svona fyrir mig sem fjármálaráðherra þá þýðir það líka að það styttist í að við fáum borgað til baka og það er auðvitað mjög gleðilegt. Fyrir utan náttúrulega hvaða áhrif þetta hefur fyrir íbúana sem eru hérna og síðan ferðamenn sem fara um Norðurland. Þannig að þetta verður mikil framför.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×