Innlent

78 hagkvæmar íbúðir rísa á mjög eftirsóttu svæði

Birgir Olgeirsson skrifar
Fyrirhuguð byggð á Keilugranda.
Fyrirhuguð byggð á Keilugranda.
78 litlar og hagkvæmar íbúðir fara í byggingu á Keilugranda innan nokkurra mánaða. Íbúðirnar verða byggðar af húsnæðissamvinnufélaginu Búseta en þörf er fyrir litlar íbúðir í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Búseta lóðina að Keilugranda formlega í dag en þar hyggst Búseti byggja íbúðir auk útisvæða með gróðri og sérafnotareitum. Hugmyndir eru um að við íbúðarhúsin verði sérstakur lýðheilsureitur sem útfærður verður í samráði við íþróttafélagið KR.

Gamli SÍF-reiturinn

Margir þekkja lóðina sem „gamla SÍF-reitinn“ en á henni stendur nú niðurnídd vörugeymsla sem Samband íslenskra fiskframleiðenda lét reisa á 7. áratug síðustu aldar. Borgarstjóri sagði við þetta tilefni að það væri mjög ánægjulegt hvernig staðið hefði verið að samráði við íbúa af hálfu Búseta.

„Að við séum stödd hér í dag er til marks um þá sátt sem ríkir um uppbyggingaráformin. Nú hefur borgin afhent ykkur þessa lóð til að byggja á og þið megið bara helst byrja strax,“ sagði Dagur B. Eggertsson. 

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, sagði að mikil áhersla yrði lögð á að halda kostnaði niðri og að það yrði á færi venjulegs fólks að kaupa íbúðir á reitnum.

Byrja að rífa húsið fljótlega

Hafist verður handa fljótlega við að rífa húsið og er gert ráð fyrir að uppbygging hefjist á reitnum strax í sumar. Áhersla er lögð á litlar og einfaldar íbúðir og m.a. verða engin stæði í bílakjallara sem lækkar kostnað við framkvæmdina. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar árið 2019.

Svæðið í kring um Keilugrandann hefur verið mjög eftirsótt. Stóraukið framboð íbúða á vegum húsnæðissamvinnufélags mun því vafalaust verða fagnaðarefni fyrir þá sem vilja búa í hverfinu. Ástand á fasteignarmarkaðnum í Vesturbænum hefur verið afar erfitt að undanförnu vegna mikilla verðhækkana og fjölgunar íbúða sem farið hafa í leigu til ferðamanna.

60 Búsetaíbúðir í Smiðjuholti seldust upp á 2 mánuðum

Búseti er einnig að fara að úthluta íbúðum í þriðja áfanga í Smiðjuholti í nágrenni við Hlemm. Tæplega 80 íbúðir koma í sölu hjá félaginu í haust en þar af eru um 50 stúdíó- og tveggja herbergja íbúðir. Á aðeins tveimur mánuðum í vor hefur Búseti selt tæplega 60 íbúðir á þessum sama reit og ljóst er að margir vilja búa miðsvæðis.

Áherslurnar í uppbyggingunni á Keilugranda eru einfaldari og ódýrari íbúðir með minni sameign án bílakjallara á meðan Smiðjuholtið er íburðarmeira með stærri íbúðum í bland og bílakjallara í sameign. Markmiðið er að höfða til ólíkra hópa en stefna Búseta er að tryggja fjölbreytni á húsnæðismarkaði.

Búseti er samvinnufélag í eigu fólks sem býr í íbúðum félagsins og annarra félagsmanna. Á síðasta ári fjölgaði félagsmönnum Búseta um 20%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×