Skoðun

Ríkisfjármálastefnan tekur ekki á vandanum – vantar tugi milljarða

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar
Þessa dagana fjallar Alþingi um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna leggur línurnar um það sem koma skal á næstu fimm árum í ríkisfjármálum, t.d. hversu mikið svigrúm er ætlað til fjárfestinga og viðhalds í heilbrigðismálum, samgöngumálum og menntakerfinu, svo eitthvað sé nefnt.

Það verður því miður að segjast að ríkisfjármálastefnan gengur engan veginn upp miðað við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir í þessum málaflokkum. Samgönguáætlun er sögð vera vanfjármögnuð um 10 milljarða en að mati greiningadeildar Arion banka er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í vegakerfinu yfir 20 milljarðar og hefur verið það frá ársbyrjun 2016.

En það er ekki bara uppsöfnuð þörf í vegakerfinu, heldur líka í öðrum innviðum eins og heilbrigðis- og menntamálum og sú stefna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram tekur ekki á þessari vanfjármögnun. Þarna munar tugum milljarða og því er óásættanlegt að samþykkja ríkisfjármálastefnuna óbreytta.

Það eru til fjármunir – sækjum þá

Það er gott að leggja áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtakostnað en um leið er ekki hægt að vanrækja innviðina. Það þarf að auka tekjur ríkissjóðs til að mæta þeim þörfum og það verður ekki bara gert með stöku vegtollum út frá höfuðborginni. Það þarf að styrkja tekjuöflunarkerfi ríkisins með réttlátum hætti þar sem leggja þarf áherslu á að hlífa lág- og millitekjuhópum. Það er hægt að gera með því að hækka auðlindagjöld og kolefnisgjald, setja á komugjöld og auðlegðarskatt og efla skatteftirlit enn frekar. En ríkisstjórnin heykist á því að styrkja tekjustofna ríkissjóðs sem eru í járnum þegar tillit er tekið til hagsveiflunnar líkt og fjármálaráðuneytið hefur varað við.

Vanræksla uppbyggingar innviða nú er ávísun á umtalsvert meiri kostnað til framtíðar sem getur ekki talist skynsamlegt.

Það eru til fjármunir – sækjum þá.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×