Sport

Ein stærsta fimleikastjarna sögunnar seldi Ólympíuverðlaunin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olga Korbut með verðlaun á ÓL 1972.
Olga Korbut með verðlaun á ÓL 1972. Vísir/Getty
Olga Korbut heillaði allan heiminn upp úr skónum á Ólympíuleikunum í München 1972 en nú er öldin önnur hjá einni af mestu fimleikastjörnum sögunnar.

Olga hélt uppboð þar sem hún seldi verðlaun frá frábærum ferli sínum í fimleikunum en hún var súperstjarna í fimleikaheiminum á áttunda áratugnum.

Olga Korbut keppti á sínum tíma fyrir Sovétríkin en hún er fædd í Hvíta-Rússlandi. Hún vann fern verðlaun á Ólympíuleikunum í München og önnur tvenn verðlaun á Ólympíuleikunum í Montreal fjórum árum síðar.

Olga hefur upplifað erfiða tíma í fjárhagslega á síðustu árum en hún fékk ríkulega borgað fyrir verðlaunasafnið sitt. Rússneski vefurinn Gazeta.ru sló upp fyrirsögininni: „Medalíurnar björguðu Korbut frá hungri“ BBC segir frá.

Olga var sautján ára á Ólympíuleikunum í München 1972 og fékk þá viðurnefnið Spörfuglinn frá Minsk. Brosið hennar bræddi hjörtu allra sem á horfðu og sjarmi hennar átti mikinn þátt í að gera hana að Ólympíugoðsögn. Ekki spillti frammistaðan heldur fyrir en hún vann þrjú gull og eitt silfur í München. Fjórum árum síðan fylgdi hún þessi eftir með því að vinna gull og silfur.

Olga Korbut seldi þó ekki öll verðlaunin sín því hún hélt meðal annars eftir einum gullverðlaunum sínum frá Ólympíuleikunum í München 1972.

Korbut fékk alls 183 þúsund dollara fyrir verðlaunin sín, tæpar tuttugu milljónir íslenskra króna, þar af fékk hún 66 þúsund dollara fyrir gullið sem hún vann með sovéska liðinu í liðakeppninni á ÓL í München 1972 en það eru rúmar sjö milljónir íslenskra króna.

Olga Korbut flutti til bandaríkjanna árið 1991 þegar Sovétríkin leystust upp en hún býr núna í Arizona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×