Erlent

Stal myndum fræga fólksins: Hakkari hlaut níu mánaða dóm

atli ísleifsson skrifar
Jennifer Lawrence var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á Majerczyk.
Jennifer Lawrence var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á Majerczyk. Vísir/AFP
Dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt hinn 29 ára Edward Majerczyk í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa brotist inn á reikninga fjölda frægs fólks og stolið þaðan mikið magn mynda og myndskeiða, þeirra á meðal nektarmynda.

Í frétt BBC segir að Majerczyk hafi gabbað fólkið til að afhenda sér notendanöfn og lykilorð. Majerczyk er frá Chicago og var jafnframt dæmdur til að greiða einu fórnarlamba sinna 4.900 Bandaríkjadala, um 570 þúsund króna, í skaðabætur þar sem nokkrar myndanna fóru í dreifingu á netinu.

Í dómnum var ekki minnst á nein fórnarlömb, en vitað er að ein af þeim sem varð fyrir barðinu á Majerczyk var Jennifer Lawrence, sem lýsti málinu sem kynferðisbroti í viðtölum.

Dómstóll í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum dæmdi í október 36 ára karlmann, Ryan Collins, í átján mánaða fangelsi fyrir sambærilegt brot, en hann stal þúsundum mynda, meðal annars nektarmyndum, úr einkasafni rúmlega hundrað manna. Á meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á Collins voru leikkonurnar Lawrence og Aubrey Plaza og söngkonurnar Rihanna og Avril Lavigne.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×