Erlent

Gáfu nemendum lífshættulegt magn koffíns

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nemendurnir áttu að fá 0,3 grömm af koffíni en fengu þess í stað 30 grömm.
Nemendurnir áttu að fá 0,3 grömm af koffíni en fengu þess í stað 30 grömm. Vísir/Skjáskot
Háskóli í Bretlandi hefur verið sektaður eftir að tveir nemendur lentu í lífshættu þegar þeim var gefið hundraðfalt magn koffíns, sem heilbrigt getur talist að innbyrða, í tilraun. BBC greinir frá.

Um er að ræða Northumbria háskólann í Newcastle, en skólinn hlaut sekt sem nam 400 þúsund pundum vegna málsins. Fulltrúar skólans sögðu frammi fyrir dómstólum, að þeim þætti málið innilega leitt. Um var að ræða tvo nemendur í íþróttafræði, en gera átti tilraun á þeim til að finna út hver áhrif koffíns á einstaklinga eru, á meðan æfingu stendur.

Nemendum tveim var gefið því sem samsvarar koffínmagni í 300 bollum af kaffi. Um var að ræða mistök af hálfu rannsakenda, sem reiknuðu út vitlaust magn koffíns, en nemendurnir áttu að fá 0,3 grömm af koffíni. Þeir fengu þess í stað 30 grömm, en koffínið var í duftformi.

Eftir að nemendurnir innbyrtu koffínið urðu þeir strax mjög veikir og varð að fara með þá í flýti á bráðamótttöku, þar sem koffínið var hreinsað úr líkama þeirra. Í máli saksóknara kom fram að nemendurnir hefðu verið í bráðri lífshættu, en til eru dæmi þess að fólk láti lífið eftir að hafa innbyrt einungis 18 grömm af koffíni, í einum vettvangi.

Báðir nemendurnir hafa jafnað sig að fullu líkamlega, en annar hefur þó átt í örðugleikum með minni. Skólinn hyggst fara yfir verkferla á rannsóknum sem gerðar eru innan skólans, í kjölfar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×