Erlent

Synjað um vegabréf vegna veganisma: Konan þótti „pirrandi“

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Kýr í Sviss bera gjarnan níðþungar kúabjöllur um háls sér.
Kýr í Sviss bera gjarnan níðþungar kúabjöllur um háls sér. vísir/getty
Konu, sem búsett er í Sviss, hefur verið synjað um vegabréf þar í landi vegna mótmæla sinna í garð svissneskra hefða. Independent greinir frá þessu.

Konan er grænkeri og neytir því engra dýraafurða. Hún hefur verið virk í mótmælum gegn grísakapphlaupum og þeirri hefð að setja bjöllur um háls kúa.

Konan, sem heitir Nancy Holten, er hollensk en hefur verið búsett í Sviss frá því hún var átta ára. Börn hennar eru svissneskir ríkisborgarar.

Holten hefur veitt svissneskum fjölmiðlum viðtöl þar sem hún hefur tjáð sig um svissneskar hefðir, á borð við kúabjöllur, og hversu slæmar þær séu með tilliti til velferðar dýra.

„Dýrin bera í kringum fimm [kílóa bjöllu] um hálsinn á sér. Þær valda núningi og brunasárum,“ sagði hún meðal annars í samtali við fjölmiðla.

Í Sviss er hefð fyrir því að fólk sem býr í grennd við þann sem sækir um vegabréf hafi atkvæðisrétt í málinu. Íbúar bæjarins sem Holten býr í töldu að veganismi Holten og mótmæli hennar gegn hefðum Svisslendinga væru „pirrandi“ og meirihluti þeirra greiddi atkvæði gegn henni.

Umsóknin hefur verið send til yfirvalda kantónunnar þar sem Holten býr en þau gætu tekið þá ákvörðun að veita henni vegabréf þrátt fyrir synjunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×