Innlent

Forsætisráðherra segir Seðlabankann hafa haldið vöxtum of háum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Vísir/Ernir
Forsætisráðherra segir að endurskoða þurfi peningastefnuna. Seðlabanki Íslands hafi haldið vöxtum of háum í landinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra flutti sitt fyrsta áramótavarp í gærkvöldi. Nú þegar liðnir rúmir tveir mánuðir frá Alþingiskosningum hefur enn ekki tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Sigurður Ingi sagði Alþingismenn þrátt fyrir þetta hafa leyst mikilvæg verkefni farsællega þegar það kom að nýju saman í desember.

„Höfum samt í huga að lýðræðinu er ekki best þjónað með samheldni og samstöðu um alla skapaða hluti og í reynd alls ekki. Skoðanaskipti og mismunandi áherslur eru nauðsyn hverju samfélagi til að ná fram bestri niðurstöðu. Svo ekki verður við ríkisstjórnarleysi unað til langframa. Það eru stór mál sem verður að takast á við til að tryggja hér hagsæld á komandi árum. Sú vinna verður að fara fram á vettvangi framkvæmdavaldsins undir pólitískri leiðsögn ráðherra,“ sagði Sigurður Ingi.

Þá sagði Sigurður Ingi að endurskoða þurfi peningastefnuna. „Eitt af þeim verkefnum sem bíða okkar er endurskoðun á peningastefnunni. Vextir eru of háir á Íslandi. Seðlabankinn hefur haldið þeim of háum hvort sem eru í kreppu eða uppgangi. Það þarf að skoða peningastefnuna heildstætt og hvort hún þarfnast endurskoðunar eða hvort núverandi kerfi er best til þess fallið að viðhalda lágri verðbólgu og stöðugleika,“ sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×