Erlent

Suður-Kóreskur munkur kveikti í sér í mótmælaskyni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikil reiði hefur verið meðal almennings í Suður-Kóreu vegna samkomulagsins.
Mikil reiði hefur verið meðal almennings í Suður-Kóreu vegna samkomulagsins. Vísir/EPA
Suður-Kóreskur búddamunkur er í lífshættu eftir að hann kveikti í sér í Seúl, höfuðborg landsins í mótmælaskyni við samninga ríkisins við Japani um bætur fyrir konur þar í landi sem gerðar voru að kynlífsþrælum fyrir japanska hermenn í síðari heimsstyrjöldinni. Guardian greinir frá.

Maðurinn kveikti í sér í mótmælum á laugardaginn en hann er á sjötugsaldri og hlaut þriðja stigs bruna út um allan líkama og eru líffæri hans alvarlega sködduð eftir brunann. Að sögn yfirvalda var maðurinn án meðvitundar á spítalanum sem hann var færður á og ófær um að anda á eigin spýtur.

Í stílabók sem fannst á manninum stóð skrifað að forseti landsins, Park Geun-hye væri svikari vegna samkomulagsins við Japani sem gert var árið 2015. Þar kvað á um að japanir myndu borga núlifandi konum bætur, en þúsundir kóreskra kvenna voru gerðar að kynlífsþrælum fyrir japanska hermenn í síðari heimsstyrjöldinni og hefur mál þeirra valdið miklum vandræðum í samskiptum ríkjanna allar götur síðan.

Í skiptum fyrir japanskar bætur til handa núlifandi fórnarlömbum, sem eru um 46 talsins skuldbundu Suður-kóresk yfirvöld sig til að hætta að gagnrýna japönsk yfirvöld vegna málsins og það hefur vakið mikla reiði meðal almennings í Suður-Kóreu, en samningurinn var auk þess gerður án samráðs við fórnarlömbin.

Málið komst aftur í brennidepil nýlega vegna reiði japanskra yfirvalda út af minnismerki um konurnar sem komið hafði verið fyrir framan sendiráð landsins í Seúl, en Japanir kölluðu sendiherra sinn heim frá landinu vegna málsins.

Litlar líkur eru taldar á því að munkurinn muni jafna sig af sárum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×