Yfir 300 manns taka þátt í Northern Challenge 2017, alþjóðlegri æfingu sprengjusérfræðinga sem fram fer hér á landi, en æfingin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Æfingin hefur verið árviss viðburður síðustu sextán ár og hefur íslenska Landhelgisgæslan yfirumsjón með henni. Þar takast tugir sprengjuteyma á við verkefni sem felast í því að finna og aftengja sprengjur, bæði á Suðurnesjum og í Hvalfirði, en sprengjurnar eru hannaðar og smíðaðar eftir raunverulegum tilfellum sem upp hafa komið víða í heiminum.
Verkefnastjóri æfingarinnar, Daninn Peter Jegsen, segir Ísland afar góðan áfangastað fyrir æfingar af þessu tagi. Þannig sé talsvert landrými og innviðir á borð við hafnir og flugbrautir sem nýta megi til æfinga. Þá sé hið harðneskjulega veðurfar sem hér ræður ríkjum kjörið, enda hljóti sprengjuteymin aukna þjálfun þegar æft er í erfiðum veðurskilyrðum.
Fréttastofa Stöðvar 2 kíkti á æfingu dagsins og fylgdist með, en samantekt má sjá í spilaranum að ofan.
Eyða gervisprengjum á Suðurnesjum
Hersir Aron Ólafsson skrifar