Lífið

Aldrei komið í Vaglaskóg

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
"Það eru alger forréttindi að tónlistin manns nái útbreiðslu og maður geti unnið við það sem maður elskar."
"Það eru alger forréttindi að tónlistin manns nái útbreiðslu og maður geti unnið við það sem maður elskar." Myndir/Kaleo
Hljómsveitin Kaleo er á fljúgandi siglingu en platan hennar sem kom út í Bandaríkjunum 10. júní rauk upp í fyrsta sæti í sjö löndum og beint í 15. sæti Billboard-listans. Jökull Júlíusson er pollrólegur yfir velgengninni. „Ég verð að bæta úr þessu sem fyrst. Ég stefni á að fara allavega eitthvert norður í sumar en við ætlum að halda tónleika á Íslandi í júlí,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Kaleo, þegar í ljós kemur að hann hefur aldrei komið í Vaglaskóg. Það sé auðvitað hneisa þar sem útsetning hljómsveitarinnar á hinu rómaða lagi Vor í Vaglaskógi bræddi hvert einasta hjarta landsins sumarið 2013 og má segja að það hafi markað upphafið að velgengni Kaleo.

Drífurðu ekki hljómsveitina með þér í fellihýsi í skóginn? „Ætli það verði ekki meiri stemning fyrir því að tjalda bara,“ segir hann sposkur.

Eitt og hálft ár er síðan hljómsveitin flutti með manni og mús til Austin í Texas til að freista gæfunnar og það hefur svo sannarlega tekist. Ný plata hljómsveitarinnar er að gera allt vitlaust. Rauk upp í fyrsta sæti í sjö löndum um leið og hún kom út og beint í 15. sæti á Billboard-listanum.

Myndin er frá Hangout Fest í Alabama þar sem að Kaleo spilaði í síðasta mánuði. 
Með læknateymi í málinu

Velgengninni fylgir álag og það fékk Jökull sjálfur að reyna á dögunum, þegar röddin gaf sig svo fresta þurfti tónleikum.

„Ég sagði þeim að þetta myndi gerast ef þau bókuðu mig of þétt, þetta eru afleiðingarnar. Ég er með heilu læknateymin í bæði LA, Nashville og víðar og treysti þeim fullkomlega. Það voru engir hnútar á raddböndunum bara ofálag. Ég er allur að koma til og ætti að vera orðinn flottur fyrir tónleikana í Gamla bíói í júlí, hlakka mikið til þeirra. Það hefði verið gaman að vera í toppstandi í útgáfuvikunni í LA og NY en svona er þetta. Ég fékk nokkra aukadaga til að koma heim og hvílast,“ segir hann. 

„Við erum nýkomnir heim og maður er bara að kúpla sig niður eftir mikla keyrslu,“ segir Jökull, hann eigi sterkt bakland í fjölskyldunni heima.

„Ég á þrjár systur, eina eldri og tvær yngri. Elsta systir mín gifti sig einmitt nýverið en ég komst ekki í brúðkaupið þar sem ég var á miðju tónleikaferðalagi. Mér þykir ótrúlega miður að hafa misst af því, þetta er örugglega það versta sem ég hef gert af mér,“ segir hann og vill meina að hann sé yfirleitt góður bróðir og sonur. Hann hafi verið þægt barn. „Mamma myndi kannski lýsa mér sem „ákveðnum ungum manni“,“ segir hann sposkur.

"Með aðdáanda í Idaho þar sem við héldum tónleika nýlega.“
Stefndi á fótboltann

Tónlistaráhuginn kviknaði snemma og var Jökull farinn að æfa sig á píanó átta ára og leikur á gítar og píanó í dag ásamt því að syngja. Hann segist alæta á tónlist en þó höfði tónlist frá 6., 7. og 8. áratugnum sérstaklega til hans. Uppáhaldshljómsveitirnar séu The Doors, Bítlarnir svo og Ray Charles. Hann sá sjálfan sig þó ekki fyrir sér sem tónlistarmann fyrr en fyrir fáeinum árum.

„Ég hef alltaf verið mikill fótboltaáhugamaður og ég held að mig hafi lengi vel langað til að verða íþróttamaður. Bæði spilaði ég þegar ég var yngri og fylgdist mikið með í sjónvarpi. Það hefur minnkað eftir að ég flutti út enda mikill tímamismunur og í raun sorglega lítill áhugi á fótbolta í Bandaríkjunum. Ég hef reynt að komast inn í íþróttamenninguna hér úti og hef fylgst með NBA og NFL. Ég fylgist að sjálfsögðu með EM í fótbolta. Við horfðum á fyrsta leikinn á bar á Manhattan og misstum nánast af fluginu okkar því við gátum ekki sleppt seinni hálfleik. Ég er gífurlega ánægður og stoltur af frammistöðu liðsins í alla staði.“

Hljómsveitin á góðri stund í Napa Valley.
Pollrólegur yfir velgengninni

Hvað þýða þessar móttökur sem platan fær fyrir ykkur?

„Þetta hefur auð­vitað mjög jákvæð áhrif fyrir okkur úti og kemur sér mjög vel, sérstaklega þar sem að „Way Down We Go“ er á rosalegum skriði í útvarpi úti einnig. Þetta vinnur því vel saman. Við erum líka mjög spenntir fyrir Ameríku- og Evróputúr í haust,“ segir Jökull.

Hljómsveitin virðist þó ekki láta vinsældirnar stíga sér til höfuðs, allavega fer Jökull að hlæja þegar hann er spurður hvort þeir séu búnir að „meikaða“.

„Ætli það sé ekki fyrir aðra að dæma um það. Ég held að við séum alls ekkert að velta okkur of mikið upp úr því, hvað sem það þýðir eða stendur fyrir.“ segir hann en viðurkennir þó að hlutirnir gangi glimrandi vel.

„Við erum auðvitað í skýjunum yfir móttökunum sem við höfum fengið. Við erum sífellt að sjá aukningu á tónleikum og útbreiðslu tónlistarinnar auk þess sem okkur hefur verið tekið frábærlega vel í útvarpi, ekki bara í Bandaríkjunum heldur víðar í heiminum. Við gætum allavega ekki beðið um meira á stuttum tíma en að sjálfsögðu er stefnan bara sett hærra í framhaldinu,“ segir hann og þakkar árangurinn þrotlausri vinnu.

Hljómsveitarlífið í fyrirheitna landinu sé ekki eintómt partístand og stuð.

„Partí og glamúr er vissulega hluti af þessu og stendur mönnum til boða. Þetta er aftur á móti líka mikil vinna og stífur fókus. Það eru alger forréttindi að tónlistin manns nái útbreiðslu og maður geti unnið við það sem maður elskar. Það kemur mér kannski mest á óvart hversu mikið af mismunandi fólki á öllum aldri tengir við tónlistina,“ segir Jökull.

Forðast „denim on denim“

Er kominn Texasbragur á þig?

„Ég á reyndar ekki kúrekahatt enn þá. Stígvél á ég en reyni að forðast „denim on denim,“ segir Jökull. „Það er að sjálfsögðu hluti af þessu að spá í útlitið, sérstaklega þegar við erum að koma svona mikið fram og erum með stílista nánast við hvert tilefni,“ segir hann.

„Ég reyni líka að hreyfa mig nánast daglega en frítíminn er sorglega lítill og ég má þakka fyrir ef það er tími til þess.“

Hafa trú á sjálfum sér

Hvaða ráð áttu handa ungum krökkum sem eru að berja saman hljómsveit úti í bílskúr?

„Trúið á sjálf ykkur og það sem þið eruð að gera. Það er fyrsta en líka mikilvægasta skrefið.“

Hvar sérðu sjálfan þig eftir 10 ár? „Vonandi búinn að áorka því sem ég ætla mér og mögulega að stofna eða búinn að stofna fjölskyldu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.