Innlent

Björn fékk golfkúlu í augað eftir að hafa slegið í stein: „Líkt og ég hafi verið skotinn“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Líkt og ég hafi verið skotinn,“ sagði kylfingurinn Björn Arnarson við Bítið á Bylgjunni í morgun þegar hann var beðinn um að lýsa því þegar hann fékk golfkúlu í augað á sjöunda braut Hamarsvallar í Borgarfirði laugardaginn 23. júlí síðastliðinn.

Björn lýsti því hvernig hann hafði slegið upphafshöggið aðeins út fyrir braut og þar voru nokkrir steinar. Hann sagðist hafa spilað golf í þrjátíu ár og áður verið í slíkum aðstæðum. Hann virti fyrir sér höggið, skipti meira segja um kylfu til að ná boltanum hærra og yfir steinana, lét svo vaða og man næst eftir sér á jörðinni. Kúlan hafði þá farið í steininn og beint í andlitið á honum. 

Félagar Björns hlupu að honum og báðu hann um að leyfa þeim að sjá hvernig augað liti út. Björn tók höndina frá auganu og fossblæddi úr því. „Þeir sögðu að það væri líklegast betra að ég héldi þrýstingnum á því.“

Heilbrigðisstarfsmaður tók stjórnina

Björn sagði að í hollinu fyrir aftan þá hafi verið kona að nafni Lilja sem sé heilbrigðisstarfsmaður og að hún hafi tekið stjórnina. Hún benti mönnum strax á að Björn hefði hlotið höfuðáverka og að hann væri ekki að fara neitt nema í sjúkrabíl, en félagar Björns höfðu fengið þá hugmynd að ganga með hann upp að golfskála Hamarsvallar.

Þegar sjúkraflutningamenn komu á svæðið fékk hann morfín í æð og var farið með hann á slysadeild. Við skoðun kom í ljós að augnbotninn var brotinn og blæddi inn á augað.

Sjóntaugarnar sluppu

Hann sagði augað þó líta þokkalega út í dag, miðað við aðstæður. Sjóntaugarnar sluppu óskaddaðar en mar kom og augað og einhverjar bólgur sem munu hjaðna með tímanum. Sjónin á að koma að mestu til baka að sögn Björns. 

Hann sagði forsvarsmenn golfklúbbs Borgarness hafa boðið sér að koma aftur þegar hann hefur náð fullri heilsu og klára hringinn.

Taka frekar víti

Björn var að lokum beðinn um að gefa kylfingum ráðleggingar lendi þeir í þessum aðstæðum, að ætla að reyna að taka áhættu og slá yfir eða fram hjá stórum steinum. „Skoða vel í kringum og sig og ekki hika við að taka þetta víti sem er í boði,“ svaraði Björn en með því að taka víti mega kylfingar færa bolta tvær kylfulengdir til hliðar, þó ekki nær holu, og eins langt aftur og þeir kjósa, og geta þannig sloppið við að stefnu heilsu sinni í hættu.

Hann sagði augnlækninn sinn hafa sagt sér frá öðrum manni sem fékk golfkúlu í augað en þó hálfum sentímetra innar en hjá Birni og sprakk augað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×