Innlent

„Mikilvæg kynjapólitísk aðgerð að konur standi saman“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir á Fundi fólksins í dag.
Svandís Svavarsdóttir á Fundi fólksins í dag. vísir/eyþór
Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segir mikilvægt að konur í stjórnmálum standi saman þvert á flokka. Þá segir hún það staðreynd að það sé talað öðruvísi um konur í stjórnmálum en karla og það sé meira úthald fyrir því þegar karlarnir fari út af brautinni heldur en þegar konur gera það. Þá er hún ekki sammála Ögmundi Jónassyni samflokksmanni sínum um það að stjórnmálakonur nýti sér neikvætt umtal til eigin upphafningar en þetta kom fram í viðtali við Svandísi á Fundi fólksins í dag.

„Ögmundur orðaði þetta almennt eins og hann ætti við allar konur í stjórnmálum og það er auðvitað ekki þannig. Það er ekki bara veruleiki stjórnmálakvenna á Íslandi heldur um allan heim að við erum að glíma við kerfið sem er ekki sett saman af okkur eða fyrir okkur heldur er sett saman af valdakerfi sem gegnsýrt af kynjakerfinu þar sem karlar eru í raun og veru í forystu og kerfið er svona sniðið að þeim. Það þarf ekki meira en að horfa bara á þá staðreynd að konur endast mun skemur í stjórnmálum heldur en karlar og draga af því þá ályktun að það hlýtur að vera með einhverju móti þannig að kerfið sé konum óhagstætt. Að minnsta kosti væri það mjög skrýtin niðurstaða að telja að það væri eitthvað að öllum konum sem færu í pólitík,“ sagði Svandís.

Hún sagði það alþekkt að karlasamstaða væri gegnumgangandi í samfélaginu öllu og að rannsóknir hefðu sýnt það að þegar konum fjölgi við borðið að þá hafi karlar tilhneigingu til að finna aðrar leiðir til að styðja hvern annan. Aðspurð hvort að konur á Alþingi stæðu saman og styddu hvor aðra sagði hún það vera allavega.

„En ég held að það sé mikilvægt og ég hef talað fyrir því, að konur myndi bandalög þvert á flokka ekki bara efnisins vegna eða vegna þess að það sé mikilvægt fyrir málefnin heldur vegna þess að það er í sjálfu sér mikilvæg kynjapólitísk aðgerð að konur standi saman.“

Þá nefndi Svandís dæmi um kvennasamstöðu frá tíma sínum í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Ég man eftir verkefnum sem við höfum komið í gegn bara á grundvelli kvennasamstöðu í borgarstjórn Reykjavíkur til að mynda þegar við Hanna Birna gerðum um það bandalag önnur okkar var í meirihluta en hin í minnihluta og við komum okkur saman um það að ekki yrði leyfð klámráðstefna á Hótel Sögu. Það hefði ekki verið hægt ef við hefðum unnið það eftir venjulegum pólitískum línum og það endaði með fullu húsi í atkvæðagreiðslu í Ráðhúsi Reykjavíkur byggðist á kvennasamstöðu.“

Viðtalið við Svandísi má sjá í spilaranum hér að neðan en það hefst þegar 4 klukkutímar og 42 mínútur eru liðnar af útsendingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×