Innlent

Vilja malbikshrauka í Kapelluhrauni í burtu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Söfnunin hefur staðið yfir lengi og mikið magn er komið á svæðið.
Söfnunin hefur staðið yfir lengi og mikið magn er komið á svæðið. Mynd/Hafnarfjarðarbær
Skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðar hefur bannað geymslusvæði í Kapelluhrauni í bæjarlandinu að taka á móti malbiksúrgangi. Telja bæjaryfirvöld geymslusvæðið ekki hafa leyfi til að taka á móti þessum úrgangi. Framkvæmdastjóri geymslusvæðisins telur sig hins vegar hafa haft leyfi bæjarverkfræðings.





Ólafur Ingi Tómason formaður skipulagsnefndar Hafnarfjarðar
Geymslusvæði ehf. er með 35 hektara svæði í Kapelluhrauni sem hefur verið skipulagt undir iðnaðarsvæði. Þar tók fyrirtækið á móti miklu magni malbiks sem á að endurnýta á götur borgarinnar. „Þetta er nokkuð mikið af efni sem kemur af götum borgarinnar og á að endurnýta í malbik,“ segir Ástvaldur Óskarsson, framkvæmdastjóri Geymslusvæðis.

„Við töldum okkur vera með samkomulag við bæjarverkfræðing, það var munnlegt. Ég hafði allavega þann skilning á málinu að þetta væri í lagi. Hér er ekki um rusl að ræða heldur endurnýtanlegt efni,“ segir Ástvaldur. „Ef þetta er svona eitrað efni þá eru allar götur borgarinnar baneitraðar, það er bara þannig.“

Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs, segir fyrirtækið hafa óskað eftir leyfi til þess að taka við þessum efnum á fyrri hluta síðasta árs en ekki fengið. Síðan hafi komið í ljós fyrir stuttu að fyrirtækið hefði hafið efnissöfnun. Því hafi ekki verið annað hægt að gera en að stöðva framkvæmdir.

Skipulags- og byggingaráð beindi því svo til bæjaryfirvalda að efnismóttakan yrði kærð til lögreglu og Umhverfisstofnunar.

„Já, við teljum þetta alvarlegt mál. Þarna rennur mikið vatn og við þurfum að gæta að okkur þegar svona miklu efni er safnað saman,“ segir Ólafur Ingi. „Þetta verður síðan tekið fyrir á næsta fundi bæjarráðs.“

Ástvaldur vonar að hægt verði að ná sátt í málinu áður en til dómstóla kemur. En það sé þá undir bæjar­yfir­völdum komið. „Auð­vitað er æskilegra að við náum sátt, en það fer þá eftir lipurð málsaðila og þá aðallega bæjaryfirvalda. Við munum ræða við bæjarverkfræðing og fara yfir stöðuna,“ segir Ástvaldur.

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×