Innlent

Sinubruni í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gærkvöldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá sinubrunanum í gærkvöldi.
Frá sinubrunanum í gærkvöldi. mynd/þjóðgarðurinn á þingvöllum
Um 100 fermetra svæði í Hestagjá í þjóðgarðinum á Þingvöllum varð sinueldi að bráð í gærkvöldi. Fjórir landverðir sem voru á vakt náðu að slökkva eldinn ásamt franska ferðamanninum Maxime og ónefndum veiðimanni. Slökkviliðið kom svo á vettvang og slökkti í restinni af glæðunum auk þess að bleyta í öllu svæðinu svo eldur myndi ekki kvikna á ný.

„Þetta var fyrst og fremst sina sem brann og þetta eru auðvitað alvarlegar gróðurskemmdir eins og alltaf þegar svona gerist en svona gróður er þó tiltölulega fljótur að ná sér,“ segir Torfi Stefán Jónsson, verkefnastjóri í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Torfi segir að landverðir hafi fyrst orðið eldsins varir.

„Það eru landverðir hér á vakt á kvöldin og næturnar og þeir sem voru á kvöldvaktinni sjá reykj koma upp úr Hestagjá. Þeir ná þá í aðra verði sem eru á vakt og eru þá fjórir að vinna við að slökkva eldinn ásamt franska ferðamanninum Maxime og ónefndum veiðimanni.“

Að sögn Torfa tók það um klukkutíma að ráða að niðurlögum eldsins en veður var mjög gott á Þingvöllum í gærkvöldi og nótt; afar lítill vindur og nánast logn, hlýtt og þurrt.

Ekki liggur fyrir hvernig eldurinn kviknaði en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins. Ekki náðist í lögregluna við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×