Erlent

Lítur út fyrir að Taílendingar hafi samþykkt nýja stjórnarskrá

Una Sighvatsdóttir skrifar
Um 50 milljónir eru á kjörskrá og svöruðu með jái eða nei-i spurningunni: Samþykkir þú drög að nýrri stjórnarskrá?
Um 50 milljónir eru á kjörskrá og svöruðu með jái eða nei-i spurningunni: Samþykkir þú drög að nýrri stjórnarskrá? Vísir/Getty
Taílendingar greiddu í dag atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um drög að nýrri stjórnarskrá, sem skrifuð var af stjórnarskrárnefnd skipaðri af hernum. Gagnrýnendur segja að nýja stjórnarskráin muni endanlega festa í sessi stjórn hersins í Taílandi.

Þegar búið var að telja 91 prósent atkvæða höfði 61 prósent þeirra sem skráðir voru á kjörskrá greitt atkvæði með hinni nýju stjórnarskrá.

Þegar herinn tók við völdum í Taílandi árið 2014, eftir margra mánaða stjórnarkreppu og óstöðugleika, var þáverandi stjórnarskrá landsins lögð af. Herinn skipaði í kjölfarið stjórnarskrárnefnd sem nú hefur skilað af sér drögum að frumvarpi, sem kosið var um í dag.

Um 50 milljónir eru á kjörskrá og svöruðu með jái eða nei-i spurningunni: Samþykkir þú drög að nýrri stjórnarskrá?

Þeir sem mæla fyrir frumvarpinu vilja meina að nýja stjórnarskráin muni stuðla að pólitískum stöðugleika í landinu að nýju. Gagnrýnendur vara hinsvegar við því að sá stöðugleiki verði því dýra verði keyptur að viðvarandi herstjórn festist í sessi. Herstjórnin hefur þó heitið því að verði stjórnarskráin samþykkt muni hún boða til almennra kosninga seint á næsta ári og lýðræðislega kjörin ríkisstjórn taki þá við að nýju. Allir stærstu stjórnmálaflokkar Taílands hafa hafnað því að styðja stjórnarskrárfrumvarpið.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt harðlega aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þar sem hvers kyns kosningabarátta sem mælti gegn frumvarpinu var bönnuð. Þannig varðar við lög að birta texta, myndir eða hljóðbrot sem séu „ekki í samræmi við sannleikann“, eins og það er orðað í lögum um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Refsing við slíku broti getur numið allt að 10 ára fangelsi. Tugir manna hafa þegar verið handteknir og ákærðir fyrir að brjóta lögin.

Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins í Taílandi segir að vegna þessa hafi almennir kjósendur í Taílandi litla þekkingu á því frumvarpi sem greidd eru atkvæði um. Sjálfstæðar kosningaeftirlitssveitir óskuðu eftir því að fá að fylgjast með og votta þjóðaratkvæðagreiðsluna, en kjörstjórn veitti ekki heimild til þess. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×