Erlent

Enn kveikt í bílum í sænskum borgum

Atli Ísleifsson skrifar
Brennuvargar hafa kveikt í á annað hundrað bíla í Malmö síðustu vikurnar.
Brennuvargar hafa kveikt í á annað hundrað bíla í Malmö síðustu vikurnar. Vísir/getty
Lögregla í Svíþjóð hafði víða í nógu að snúast í nótt eftir að fjöldi tilkynninga barst um að kveikt hafði verið í bílum, meðal annars í Malmö, Lundi, Linköping og Norrköping.

Ástandið var sérstaklega slæmt í Norrköping að þessu sinni þar sem um tuttugu bílar eyðilögðust í bruna í skemmu sem er talinn að megi rekja til íkveikju.

Lögregla segist í samtali við SVT hafa fengið tilkynningu um að sést hafi til fjögurra manna á hlaupum frá staðnum.

Íkveikjur hafa verið tíðar í Malmö síðustu vikurnar þar sem kveikt hefur verið í á annað hundrað bíla frá því í byrjun júní. Tvær tilkynningar bárust lögreglu í Malmö með stuttu millibili í nótt um íkveikjur þar sem kveikt hafði verið í nokkrum bílum á stöðunum sem um ræddi.

Í frétt SVT segir að frá í byrjun júní hafi tilkynningar borist um að kveikt hafi verið í 134 bílum í Stokkhólmi, 108 í Malmö og 43 í Gautaborg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×