Tveggja vikna farbann sem Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði Hollendinginn Angelo Uijleman í hefur verið framlengt um tvær vikur í Hæstarétti.
Angelo er einn fjögurra manna sem grunaðir eru um umfangsmikið fíkniefnasmygl hingað til lands með Norrænu í fyrra. Héraðsdómur hafði úrskurðað þá alla, nema Angelo, í fjögurra vikna farbann en farbann Angelo var styttra á grundvelli þess hversu langt er liðið frá því að málið komi upp og þeirrar samvinnu sem hann hefur sýnt undir rannsókn málsins.
Hæstiréttur gefur hins vegar ekkert fyrir þessar forsendur héraðsdóms en orðrétt segir í dómi réttarins:
„Með dómum réttarins uppkveðnum 21. janúar 2016 var þremur þeirra manna, sem sætt hafa sömu þvingunarúrræðum og varnaraðili vegna rannsóknar málsins, gert að sæta áframhaldandi farbanni til 16. febrúar 2016. Standa engin rök til þess að marka tíma farbanns varnaraðila skemmri tíma en gert var með fyrrgreindum dómum réttarins. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.“
Dóm Hæstaréttar má sjá hér.
