Innlent

Viðræður við BHM eru nýfarnar af stað

Óli Kristján Ármansson skrifar
Hér fær Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins (SLFÍ), sér vöfflur eftir undirritun samninga fyrir tveimur árum. Ekki sér enn fyrir endann á viðræðum sem í gangi eru við sveitarfélögin.
Hér fær Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins (SLFÍ), sér vöfflur eftir undirritun samninga fyrir tveimur árum. Ekki sér enn fyrir endann á viðræðum sem í gangi eru við sveitarfélögin. Vísir/Vilhelm
Enn á eftir að ljúka kjarasamningum við nokkra stóra hópa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambandsins, segir áherslu lagða á að klára samningalotuna sem allra fyrst, en viðræður séu í gangi við alla stærstu hópa sem enn séu án samnings.

„Félög háskólafólks eru öll eftir, en við erum að vinna í þeim málum núna, svo að segja nýkomin af stað af einhverri alvöru þannig að þar er mikil vinna eftir,“ segir Inga Rún, en innan BHM eru gerðir samningar við 14 félög.

Þá á, af stórum hópum, eftir að ljúka samningum við sjúkraliða, slökkviliðið og tónlistarkennara. „En við erum búin að semja við Félag íslenskra hljómlistarmanna, sem er helmingurinn af tónlistarkennurunum, en svo er hluti af þeim í félagi tónlistarskólakennara og við eigum eftir að semja við þá.“

Þeir samningar sem lokið hefur verið, sem eru nálægt fimmtíu talsins, byggja á grunni rammasamkomulags um kjaramál sem undirritað var í októberlok og hefur verið kennt við vinnu SALEK-hópsins. Hvort einhver önnur mál en snúa beint að launalið samninga tefji þau mál sem enn standa út af segir Inga Rún eiga eftir að koma í ljós. „Þetta gengur misgreiðlega, en við erum í það minnsta í viðræðum við alla og góður gangur í viðræðunum.“ Allir séu orðnir óþreyjufullir að ljúka samningum, bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og viðsemjendur þess.

Þegar þessari samningalotu lýkur tekur við næsta lota, en Félag grunnskólakennara er með lausan kjarasamning í maí á þessu ári. „Við erum byrjuð að tala við þá, en þá erum við komin í næstu umferð. Við höfum átt með þeim einn fund og fundur í næstu viku, þannig að það er farið rólega af stað.“





Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga
Beðið eftir nýrri tillögu

Víða eru þeir sem enn eru samningslausir orðnir nokkuð óþreyjufullir. Í kjara­fréttum Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) undir lok janúar segir að næðust samningar ekki í þeim mánuði mætti ljóst vera að félagið þyrfti að leita í baklandið eftir vilja félagsmanna til vinnustöðvunar.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ, segir baklandið standa þétt að baki samninganefndinni. „Síðan málinu var vísað til ríkissáttasemjara er búið að halda fimm fundi, en síðasti fundur var núna á þriðjudaginn,“ segir hún, en á þeim fundum hafi launaliðurinn einn verið til umræðu. Kristín vonast eftir nýrri tillögu frá samninganefnd sveitarfélaganna varðandi hann á fundi sem boðaður hefur verið næsta þriðjudag. „Og ég vona heitt og innilega að þá verði komið fram með eitthvað sem hægt er að vinna með. Síðan þegar það liggur ljóst fyrir á eftir að taka á öðrum þáttum sem vonandi ganga þá vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×