Innlent

Maður fékk brjálæðiskast í strætó og hótaði bæði farþegum og bílstjóra

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Farþegar í Leið 2 í morgun urðu óttaslegnir þegar maðurinn brjálaðist.
Farþegar í Leið 2 í morgun urðu óttaslegnir þegar maðurinn brjálaðist. Vísir/Ernir
Strætófarþegi á leið 2 hjá Strætó missti stjórn á sér í morgun, hótaði vagnstjóra og farþegum ef honum yrði ekki hleypt út hið snarasta. Atvikið átti sér stað um klukkan níu í morgun þegar vagninn var á leið niður í bæ eftir Suðurlandsbrautinni.

Kristján Kristjánsson var á meðal farþega og greindi hann frá atvikinu á Facebook í dag. Þar segir hann að farþegum hafi blöskrað viðbrögð vagnstjórans jafn mikið og skyndilegt æðiskast farþegans.

„Mér fannst að bílstjórinn hefði átt að hleypa honum strax út því hann var greinilega hættulegur,“ segir Kristján. „Hann hótaði bæði bílstjóra og fólki. Hann sagði að bæði bílstjórinn og farþegar myndu sjá eftir því ef hann fengi ekki að fara út. Það voru ekki mjög margir í vagninum en þeir sem voru þar urðu mjög hræddir.“

Kastaði gosflösku og skemmdi milliþil

Maðurinn kastaði fyrst gosflösku með ofsa í gólfið og vökvinn lak um allt gólf og á veggi. Eftir það öskraði hann á bílstjórann að fyrirskipaði honum að hleypa sér út. Þá var strætisvagninn stopp á ljósum en bílstjórinn ákvað þess í stað að hunsa manninn og keyra áfram að næstu stoppistöð.

Við það missti maðurinn sig enn meira og hótaði farþegum og bílstjóra. Því næst snéri hann sér að þili sem hann sparkaði í og skemmdi.

Það var ekki fyrr en maðurinn byrjaði að ganga í átt að bílstjóranum sem vagninn stöðvaðist og dyrnar loksins opnuðust.

Kristján segist ekki átta almennilega á aðstæðum mannsins.

„Hann virkaði ekki drukkinn en það var greinilegt að það voru einhver geðhvörf í gangi. Bílstjórinn bara horfði aftur til hans með einhverjum svip. Það er bara miklu flóknara en það þegar menn fá svona geðhvörf. Þetta var fáfarinn staður og hefði ekki verið neitt mál að setja hann út fyrr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×