Innlent

Íslenska á tölvuöld: Nýjasta vara Amazon talar íslensku með hjálp Dóru og Karls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Amazon segir að með Polly opnist nýr heimur.
Amazon segir að með Polly opnist nýr heimur. Mynd/Vísir
Talgervlarnir Dóra og Karl eru nú í aðalhlutverki hjá Amazon sem kynnti í gær nýja þjónustu, Amazon Polly. Polly getur tekið texta og lesið á lýtalausri íslensku. Amazon segir að með þessu opnist nýr heimur af vörum sem geti talað.

Það er Blindrafélagið sem á veg og vanda af því að hafa látið útbúa Dóru og Karl. Fékk félagið pólska framleiðandann Ivona til að úbúta talgervlana. Pólska fyrirtækið var keypt af Amazon árið 2013 og þaðan koma Dóra og Karl inn í Polly.

Segja má að þetta sé mikill happafengur fyrir íslenskuna sem er langminnsta tungumálið af þeim 27 sem í boði eru fyrir Polly. Í tilkynningu frá Amazon segir að með Polly opnist nýir möguleikar í framboði á vörum sem geti talað við notendur sína, allt frá farsímum yfir til bíla og raftækja.

Eiríkur RögnvaldssonVísir/Valli
Spennandi þróun en mikilvægt að talgreiningin fylgi með

Líkt og Vísir hefur fjallað ítarlega um hafa sérfræðingar í íslenskri máltækni varað við því að íslenskan geti setið eftir þegar kemur að máltækni, þróuninni fleygi fram. Því sé mikilvægt að stórfyrirtæki á borð við Google, Microsoft, Apple og Amazon láti íslenskuna fylgja með í vörum sem geti talað eða skilið tungumál.

Þeir sérfræðingar sem Vísir ræddi við um Polly segja að þarna sé á ferðinni jákvætt skref fyrir íslenska máltækni.

„Þetta er mjög spennandi og það sem við höfum verið að vona er að þessi stórfyrirtæki taki íslenskuna með þegar verið er að þróa svona,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.

Eiríkur segir einnig að spennandi sé að sjá hvort að Amazon muni þróa íslenskuna yfir í talgreiningarforrit sín þannig að Alexa, stafrænn aðstoðarmaður Amazon sem fylgir með Amazon Echo geti einnig skilið íslenskuna.

Snjallhátalarann Echo sem er útbúinn stafræna aðstoðarmanninum Alexa.
Talið er að næsta bylting sem verði á samskiptum manns og tölvu sé stafrænn aðstoðarmaður á borð við Alexu og Siri frá Apple sem geti skilið flóknar fyrirskipanir. Stórfyrirtæki á borð við Apple, Samsung og Google vinna hörðum höndum að þróun á slíkri tækni.

Eiríkur hefur áður bent á að mikilvægt sé að íslenskan verði með þegar þessi bylting fer á fullt og vonar hann að Amazon láti kné fylgja kviði.

Jón Guðnason, lektor í hátækniverkfræði hjá Háskólanum í Reykjavík, tekur undir með Eiríki og segir að það sé mjög gott að sjá Amazon láta íslenskuna vera með í Polly.

Hann segir að með þessu sé Amazon kominn með annan helminginn, nú vanti bara talgreininguna svo hægt sé að tala við Alexu. Í Háskólanum á Reykjavík er nú unnið að því slíku verkefni sem eigi að vera opið og öllum frjálst til afnota.

„Með þannig umhverfi getum við matreitt þetta ofan í stórfyrirtækin og þau sett þetta inn í sínar vörur,“ segir Jón.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 sem gerð var árið 2012 þegar Dóru og Karli var hleypt af stokkunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.