Innlent

Engar afskriftir í nýju samkomulagi lánveitenda og Reykjanesbæjar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mest munar um ábyrgð Reykjanesbæjar á skuldbindingum Reykjaneshafnar.
Mest munar um ábyrgð Reykjanesbæjar á skuldbindingum Reykjaneshafnar. vísir/gva
Viðræður Reykjanesbæjar og helstu kröfuhafa hafa skilað árangri. Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir 2017-2020 var samþykkt einróma á bæjarstjórnarfundi í gær.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbær
Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur verið grafalvarleg en það skuldar rúmlega fjörutíu milljarða króna. Halli hefur verið á rekstri bæjarins í þrettán af síðustu fimmtán árum og munar þar mest um lífeyrisskuldbindingar og ábyrgð bæjarsjóðs á skuldum Reykjaneshafnar. Ekki hefur enn náðst samkomulag við lánveitendur Reykjaneshafnar.

Fyrr á þessu ári, í apríl nánar tiltekið, slitnaði upp úr viðræðum um skeið eftir að kröfuhafar féllust ekki á að rúmlega 6,3 milljarðar króna yrðu afskrifaðir. Bæjarráð óskaði í kjölfarið eftir því að sveitarfélaginu yrði skipuð fjárhagsstjórn af eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Í júní óskaði bæjarstjórn eftir fresti til að ná sáttum við kröfuhafa en það samkomulag liggur nú fyrir.

„Þetta er mjög stórt skref í rétta átt eftir að hafa átt í samningaviðræðum nú í tvö og hálft ár. Það er gott að sjá nú fyrir endann á því,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Ekki er gert ráð fyrir niðurfellingum eða afskriftum í samkomulagi aðila heldur skilmálabreytingu gagnvart lánveitendum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Þá mun koma til sölu eigna en ekki verða seldar eignir sem nýttar eru til lögbundinnar grunnþjónustu sveitarfélagsins.

„Við þurfum áfram að sýna mikið og strangt aðhald en niðurskurðarhnífurinn fer ekki á loft ef allt gengur vel,“ segir Kjartan. „Ég lýsi yfir ánægju minni og óska íbúum Reykjanesbæjar til hamingju með þetta.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×