Innlent

Segja sjúkraflug liggja niðri „af mannavöldum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjúkraflug Mýflugs þurfti að fara til Akureyrar með veikan einstakling þar sem Neyðarbrautin svokallaða er lokuð.
Sjúkraflug Mýflugs þurfti að fara til Akureyrar með veikan einstakling þar sem Neyðarbrautin svokallaða er lokuð. Vísir/Baldur
Beina þurfti sjúkraflugi frá Hornafirði til Akureyrar þar sem Reykjavíkurvöllur hefur verið ófær í dag. Um var að ræða forgangsflug en Flugmálafélag Íslands segir sjúkraflug liggja niðri af mannavöldum.

„Engin sjúkraflugvél gat lent á vellinum þar sem búið er að loka þeirri flugbraut sem nýtist í stormi úr suðvestri og er í daglegu tali nefnd Neyðarbrautin. Brautin er þó enn á sínum stað og í góðu ástandi. Aðeins stjórnmálamenn standa í vegi fyrir lendingum á brautinni,“ segir í ályktun sem stjórn félagsins sendi á fjölmiðla í kvöld.

Þar kemur fram að meðlimir stjórnarinnar muni ekki eftir jafn alvarlegri stöðu í flugsamgöngum innanlands og hafi komið fram í dag.

„Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka Neyðarbrautinni.“

Félagið kallar eftir því að Neyðarbrautin verði opnuð á ný og segir að það muni ekki kosta ríkissjóð neitt. Alþingi geti tekið ákvörðun um að opna brautina þegar í stað.

„Flugmálafélagið hvetur nýtt þing til þess að bregðast við tafarlaust áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×