Innlent

Háskólar gætu þurft að taka upp skólagjöld

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Nemendahópar hafa verið of stórir í niðurskurði til háskóla frá árinu 2007
Nemendahópar hafa verið of stórir í niðurskurði til háskóla frá árinu 2007 Vísir/Ernir
Háskólar á Íslandi þurfa að fá átta milljarða til viðbótar við þá fjárhæð sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu til að ná meðaltali framlaga í OECD-ríkjunum og sextán milljarða í viðbót til að ná meðaltali Norðurlandanna, en háskólar í nágrannaríkjunum fá tvöfalt hærri framlög á hvern nemanda en háskólar á Íslandi. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá rektorum allra háskóla á Íslandi.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir niðurskurðinn síðustu níu ár hafa haft ýmsar afleðingar.

„Til að mynda höfum við þurft að kenna í mjög stórum hópum sem hefur þýtt gríðarlega mikið álag á starfsfólk, því það er að sinna fleiri nemendum en það ætti að sinna. Við erum hálfdrættingar í fjárframlögum miðað við Norðurlöndin og þýðir bara að við getum ekki sinnt okkar hlutverki,“ segir Jón Atli og bætir við að ef ekki verði gripið i taumana sjái hann fram á mikinn vanda. Annað hvort þurfi að huga að miklum aðhaldsaðgerðum eða auka tekjuöflunina.

„Það sem við þyrftum að gera er að fækka námsleiðum eða leita annarra leiða til fjármögnunar,“ segir Jón Atli og vísar þar til möguleikans á að innleiða skólagjöld. 

„Við þurfum að hugleiða það alvarlega því þetta getur ekki gengið svona áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×