Erlent

Meirihluti Bandaríkjamanna vilja fresta kosningu kjörmanna

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Ólíklegt verður að teljast að kosning kjörmanna hafi áhrif á niðurstöður forsetakjörsins.
Ólíklegt verður að teljast að kosning kjörmanna hafi áhrif á niðurstöður forsetakjörsins. vísir/afp
Meirihluti bandarískra kjósenda telur að fresta eigi kosningu á meðal kjörmanna sem á að fara fram á morgun. Þetta kemur fram í grein The Huffington Post. Með þessari atkvæðagreiðslu eru úrslit forsetakosninganna, sem fóru fram 8. nóvember síðastliðinn, staðfestar. 

Þeir sem svöruðu skoðanakönnuninni voru spurðir að því hvort þeir teldu að fresta ætti atkvæðagreiðslunni þar til nánari upplýsingar um meinta aðkomu Rússa að forsetakosningunum væru staðfestar. 52 prósent aðspurðra svöruðu spurningunni játandi. 

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, er grunaður um að hafa staðið fyrir tölvuárásum gagnvart landsnefnd Demókrata og kosningastjóra Clinton, John Podesta. Hillary Clinton hefur þegar lýst því yfir að hún telji að aðgerðir Pútíns hafi stuðlað að ósigri sínum. 

Sjá einnig: Clinton sakar Pútín um að hafa stýrt tölvuárásum til að hefna sín á henni

Atkvæðagreiðsla kjörmanna hefur almennt ekki úrslitaáhrif á forsetakosningarnar, hún hefur hingað til verið álitin formsatriði. Hins vegar eru fræðilegar líkur á því að hægt sé að snúa við úrslitunum, þótt sérfræðingar telji slíkt nánast óhugsandi.

Til þess að hrófla við úrslitunum þyrfti nokkur fjöldi kjörmanna Repúblíkana að kjósa þvert á afstöðu flokks síns en aðeins einnn kjörmaður lýst því yfir að hann hyggðist ekki ljá Trump atkvæði sitt, þótt orðrómar séu um að þeir kynnu að vera fleiri.

Eins og kunnugt er hlaut Trump 306 kjörmenn í kosningunum í nóvember en Clinton 232. Hins vegar hlaut Clinton fleiri atkvæði á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×