Innlent

„Þetta er sjón sem ég mun aldrei gleyma“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Þetta er sjón sem ég mun aldrei gleyma,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson. Þar er hann að ræða um vannærð börn í Afríku, en hann tekur þátt í neyðarsöfnun Unicef fyrir vannærð börn í Nígeríu og nágannaríkjum.

Páll segist þekkja sársaukann við að sjá slíkt en það sé ekki nauðsynlegt að sýna slíkt til þess að fólk hjálpi.

Nærri því hálf milljón barna í fjórum ríkjum Afríku eru í lífshættu vegna vannæringar. Verði ekkert gert er talið að nærri því 75 þúsund börn muni deyja í norðurhluta Nígeríu, eða rúmlega 200 á dag.

Sjá einnig: Ekki horfa, hjálpaðu.

Ástæða neyðarinnar er meðal annars skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram. Löndin sem um ræðir eru Nígería, Tsjad, Níger og Kamerún en svæðið er eitt það fátækasta í heimi.

Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum. Venjulega er því talað um að börn láti lífið af orsökum tengdum vannæringu. Staðan er hins vegar svo slæm núna að sums staðar í Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu svelta börn til dauða.

Ef hægt er að veita öllum börnum í Borno, sem þjást af alvarlegri vannæringu, viðeigandi meðferð er hægt að bjarga meira en 99% þeirra.

UNICEF hefur í áratugi verið á staðnum í öllum fjórum ríkjunum sem um ræðir og hefur nú þegar útvegað mikið magn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum, meðal annars með hjálp heimsforeldra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×