Innlent

Kosning hefst um framkvæmdir í hverfum Reykjavíkur

Atli Ísleifsson skrifar
Hugmyndum var safnað hjá íbúum í júní og bárust rúmlega níu hundruð hugmyndir, eða 50 prósent fleiri en í fyrra.
Hugmyndum var safnað hjá íbúum í júní og bárust rúmlega níu hundruð hugmyndir, eða 50 prósent fleiri en í fyrra. Mynd/Reykjavík
Kosningavefur fyrir framkvæmdir í hverfum Reykjavíkur opnaði í dag, en íbúar borgarinnar munu þar kjósa um framkvæmdir fyrir alls 450 milljónir króna. Þetta er í fimmta sinn sem kosning sem þessi fer fram, en framkvæmdafé er 50 prósent hærra en síðast.

Í tilkynningu frá borginni segir að kosningavefurinn hafi verið endurbættur en kosið er á vefslóðinni kosning.reykjavik.is. Kosningar standa í tvær vikur eða til og með 17. nóvember.

„Íbúar velja fyrst borgarhluta og kjósa síðan milli 20 verkefna upp að þeirri upphæð sem til ráðstöfunar er. Ekki er nauðsynlegt að velja fyrir alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar. 

Rétt til þátttöku í kosningunum hafa íbúar fæddir árið 2000 eða fyrr og sem eru búsettir í Reykjavík á þeim degi sem kosið er.  Ekki er skylda að kjósa í þeim borgarhluta sem viðkomandi býr, en eingöngu er hægt að kjósa í einu hverfi.  Notendur auðkenna sig til að staðfesta kosningu og stendur þar valið á milli rafrænna auðkenna og Íslykils,“ segir í tilkynningunni.

Hugmyndum var safnað hjá íbúum í júní og bárust rúmlega níu hundruð hugmyndir, eða 50 prósent fleiri en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×