Innlent

Vill hefja stjórnarmyndunarviðræður í næstu viku

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson fundaði með forystumönnum Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar í Ráðherrabústaðnum í dag.

Fundur Bjarna með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, stóð í tvær klukkustundir og einnig fundur hans með formönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Bjarni fundaði með forystumönnum Pírata í rúma klukkustund en fundur hans með Loga Einarssyni formanni Samfylkingar tók hálftíma.

„Þessi dagur var ágætur til þess að spjalla við forystu allra flokka um stöðuna. Mér fannst mikið gagn af því fyrir mig upp á framhaldið. Ég er enn vongóður um að það sé hægt að mynda hér sterka ríkisstjórn en við höfum ekki hafið stjórnarmyndunarviðræður við neinn,“ sagði Bjarni Benediktsson að loknum fundarhöldum í dag.

„Við höfum átt mest málefnalegar viðræður við Framsóknarflokkinn í fyrsta lagi, Viðreisn og Bjarta framtíð í öðru lagi og Vinstri græna í þriðja lagi. Auðvitað er það ljóst í viðræðum við Vinstri græna að það ber langmest í milli. En ég hef verið að velta því upp hvort að þau atriði þar sem mest ber í milli séu þau mál sem helst verði á dagskrá á næstu árum. Það er ekki endilega augljóst,“ segir Bjarni. 

Hann er vongóður um að hægt verði að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður í byrjun næstu viku.

„Ég ætla að gera forseta Íslands grein fyrir því hver staðan er. Ég mun ræða málin við þingflokkinn. Ég verð að gefa mér einhverja daga kannski helgina aðeins til þess að hugsa. Mögulega eiga einhver samtöl. Svo eftir helgi væri þá orðið tímabært að láta reyna á það hvort menn vilja taka samtalið eitthvað lengra. Þá á enn eftir að taka málefnalega ágreininginn allan og slípa það niður og sjá hvort eitthvað gott kemur út úr því,“ segir Bjarni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.