Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Delí vegna loftmengunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gríðarleg mengun er nú í Delí á Indlandi.
Gríðarleg mengun er nú í Delí á Indlandi. vísir/getty
Indverska ríkisstjórnin hefur lýst yfir neyðarástandi í borginni Delí vegna gríðarlega mikillar loftmengunar. Skólar í borginni verða lokaðir í þrjá daga og mögulega verða settar hömlur á það hvenær keyra má ökutæki um borgina. Þá má ekki vera við byggingavinnu í borginni eða brjóta niður hús næstu fimm daga.

Í umfjöllun BBC um ástandið í Delí kemur fram að svifryksmengun í borginni sé 90 sinnum meiri en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur vera í lagi. Hundruð mótmæltu slæmum loftgæðum í borginni í dag en yfirvöld hvetja fólk til að vera heima hjá sér og reyna að vinna þaðan á meðan á aðgerðum til að laga ástandið stendur.

Á þessum tíma árs kveikja þúsundir bænda í Haryana og Punjab í ökrum sínum til að losa leifar af uppskerunni úr jarðveginum. Reykurinn berst svo til norðurs og þannig meðal annars til Delí.

 

Það heyrir til undantekninga ef loftgæðin í borginni eru innan hættumarka að því er fram kemur í frétt Guardian en ástandið núna er sérstaklega slæmt og er talið að loftgæðin hafi ekki verið verra í 17 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×