Innlent

Pamela segir Kristján kalla skömm yfir Ísland

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Pamela Anderson er allt annað en sátt við hvalveiðar Íslands og vonar að þjóðin rísi gegn þeim.
Pamela Anderson er allt annað en sátt við hvalveiðar Íslands og vonar að þjóðin rísi gegn þeim. Mynd/Emma Dunlavey

„Ísland er ein af fjórum hræðilegum þjóðum sem eru enn að stæra sig af að drepa hvali. Atkvæðið þeirra kom mér lítið á óvart,“ segir ofurstjarnan og dýravinurinn Pamela Anderson í samtali við Fréttablaðið.

Tillaga um griðasvæði fyrir hvali í Suður-Atlantshafi var felld í Alþjóðahvalveiðiráðinu í vikunni og greiddi Ísland gegn tillögunni eins og 37 aðrar þjóðir. Pamela notar frægð sína og áhrif til að vernda hvali og situr meðal annars í stjórn umhverfissamtakanna Sea Shepard.

„Ísland brýtur gegn veiðistöðvun Alþjóðahvalveiðiráðsins og það ætti að beita þessar fjórar þjóðir, Ísland, Danmörku, Noreg og Japan, viðskipta- og efnahagsþvingunum fyrir þessar ólöglegu veiðar,“ segir Pamela.

Rúmlega 2,9 milljónir hvala hafi verið drepnar í fyrra, þar af 71 prósent þar sem griðasvæði hefði átt að vera. Hvalveiðikvóti Íslands árið 2015 var 154 langreyðar og 229 hrefnur.

Pamela sendi í fyrra Vladimír Pútín Rússlandsforseta persónulega beiðni um að stöðva för skips með langreyðakjöt frá Íslandi. Þegar Pútín svaraði ekki gekk hún sjálf í málið enda með sterkar skoðanir á hvalveiðum Íslendinga.

„Ég er 100 prósent á móti þeim og á síðasta ári fór ég til Rússlands til að reyna að stöðva ferðir skips með íslenskt hvalkjöt. Ísland er eina landið sem veiðir langreyði og stundar ólögleg viðskipti með dýr í útrýmingarhættu. Allt vegna græðgi Kristjáns Loftssonar, sem að mínu viti kallar mikla skömm yfir heila þjóð.“

Sem stjórnarmaður í Sea Shepard er Pamela vel kunnug aðgerðum samtakanna hér á landi 1986 þegar tveimur hvalveiðibátum var sökkt.

„Þetta var vel heppnuð aðgerð sem varð til þess að Ísland hætti að veiða hvali í 17 ár. Skipin eru nú á landi sem minnismerki um þessar vel heppnuðu aðgerðir. Paul Watson fór til Íslands 1988 og krafðist þess að vera ákærður í tengslum við atvikið en Ísland neitaði að verða við því sem segir mér að Íslendingar vissu að kæra myndi afhjúpa ranggjörðir landsins fyrir umheiminum,“ segir leikkonan sem kveður þau í Sea Shepard viss um að Íslendingar rísi upp og setji pressu á stjórnvöld til að enda hin hræðilegu dráp.

„Einn maður græðir á hvalveiðum á Íslandi og kallar þannig skömm yfir landið,“ segir Pamela Anderson. 

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.